„Þetta var eins og í hryllingsmynd“

Kvikmyndahúsið þar sem Holmes myrti tólf manns.
Kvikmyndahúsið þar sem Holmes myrti tólf manns. AFP

„Þetta var eins og í hryllingsmynd.“ Svona lýsti Bernd Hoefler, liðsforingi í slökkviliði Aurora í Colorado í Bandaríkjunum aðkomunni að bíósalnum þar sem James Holmes hóf skothríð í júlí 2012. Tólf létust í árásinni og sjötíu særðust. Fórnarlömbin voru gestir á miðnætursýningu Batman myndarinnar The Dark Knight Rises. Réttarhöld yfir Holmes hófust á mánudaginn.

Sky News segir frá þessu.

Hoefler, sem bar vitni í réttarhöldunum í gær, lýsti fyrir dómi hvernig lík lágu á víð og dreif í salnum. „Það var búið að traðka á sumum þeirra. Á sumum vantaði hluta úr höfði,“ lýsti liðsforinginn. 

Holmes seg­ist vera sak­laus sök­um and­legra veik­inda. Hann er 27 gamall og fyrrum meistaranemi í taugavísindum.

Lögreglukonan Annette Brook bar einnig vitni. „Það var dimmt, myndin var enn í gangi, viðvörunarbjöllur voru í gangi. Ég fór að taka eftir líkunum, fórnarlömbunum sem enn voru á lífi og blóðinu.“ Joshua Nowlan sagði frá því að hann hafði farið á miðnætursýningu á kvikmyndinni með tveimur vinum sínum sem höfðu nýlega komið heim úr brúðkaupsferð. Nowlan er tveggja barna faðir og fyrrum hermaður. Við réttarhöldin lýsti hann því þegar hann leit niður eftir skothríðina og sá stórt gat í fótlegg sínum.

„Mér leið eins og einhver væri að þrýsta ryðguðum nagla í fótlegginn,“ sagði hann kviðdómnum í gær. Nowlan náði að skýla vinum sínum en var skotinn tvisvar. Hann þurfti að gangast undir fjölmargar aðgerðir í kjölfarið. 

Að sögn Nowlan reyndi vinur hans að ýta vöðvanum og líkamsvefnum „aftur inn í fótlegginn“. Rifjaði hann einnig upp að hann hafi séð árásarmanninn ganga á milli sætanna. Nowlan notaði stafinn sem hann þarf nú til þess að ganga til þess að sýna kviðdómnum hvað gerðist næst. „Ég gat séð hann með byssuna, hann hélt henni upp við bringuna og horfði niður og skimaði eftir fleira fólki.“

Þegar að ljósin voru kveikt í salnum sagði Nowlan vini sínum að grípa konu sína og flýja. Nowlan var inni í salnum í hálftíma í viðbót þar sem hann skreið til þess að reyna að hjálpa manni sem var hálflifandi.

Lögreglumaðurinn Gerald Jonsgaard lýsti því þegar hann sá Holmes liggjandi í jörðinni á bílastæði kvikmyndahússins. Þar var hann handtekinn og klæddur úr skotheldu vesti og tekinn af honum hjálmur. Jonsgaard lýsti því einnig hvernig farsímar í salnum hringdu stöðugt. 

„Allir farsímarnir sem skildir voru eftir hringdu. Þeir hringdu stöðugt alla nóttina.“ Jonsgaard lýsti því einnig þegar hann bað annan lögreglumann að bera út yngsta fórnarlambið, hina sex ára gömlu Veronica Moser-Sullivan. Hún lést af sárum sínum. 

Verjendur Holmes höfðu engar spurningar fyrir Jonsgaard eða hin tíu vitnin sem gáfu vitnisburð.

Frétt mbl.is: Þögull og vel snyrtur

Holmes er hann kom fram fyrir dómara nokkrum dögum eftir …
Holmes er hann kom fram fyrir dómara nokkrum dögum eftir árásina. AFP
Fjölskyldur fórnarlambanna koma til dómshússins á þriðjudaginn.
Fjölskyldur fórnarlambanna koma til dómshússins á þriðjudaginn. AFP
Fjölmiðlar um allan heim fylgjast með réttarhöldunum.
Fjölmiðlar um allan heim fylgjast með réttarhöldunum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert