„Gefið ykkur fram

Franskir hermenn að störfum fyrir Sameinuðu þjóðirnar - myndin er …
Franskir hermenn að störfum fyrir Sameinuðu þjóðirnar - myndin er úr safni og er frá Líbanon ekki Mið-Afríkulýðveldinu. AFP

Varnarmálaráðherra Frakklands hvetur hermenn sem gerðust sekir um að hafa beitt börn kynferðislegu ofbeldi í Mið-Afríkulýðveldinu til að gefa sig fram.

„Gefið ykkur fram,“ segir Jean-Yves Le Drian, varnarmálaráðherra Frakklands í viðtali við vikuritið JDD í gær. Hann segist hafa fyllst viðbjóði og liðið sem svikara þegar hann fékk í gögn í hendur sem sýna að franskir hermenn sem störfuðu við friðargæslu í Mið-Afríkulýðveldinu hafi beitt hungruð börn kynferðislegu ofbeldi gegn mat. 

Fréttir bárust af gögnunum í síðustu viku en þeim var lekið af sænskum starfsmanni Sameinuðu þjóðanna en þeim hafði verið haldið leyndum af hálfu SÞ.

„Þegar franskur hermaður er í sendiför þá er hann Frakkland,“ segir Le Drian í viðtalinu. „Ef einhver þeirra hefur gert þetta þá verður sá hinn sami að gefa sig strax fram.“

Ofbeldið átti sér stað í miðstöð fyrir fólk sem hafði þurft að flýja heimili sín vegna átaka í landinu. Samkvæmt skýrslu SÞ átti það sér stað á tímabilinu desember 2013 til júlí 2014 á flugvellinum í höfuðborg landsins, Bangui.

Rannsóknin var unnin í fyrravor og lauk síðasta sumar en var lekið til franskra yfirvalda vegna aðgerðarleysis SÞ.

Le Drian segir að hann hafi strax afhent dómstólum skýrsluna og að rannsókn innan hersins á ásökunum hafi verið lokið í ágúst. Spurður að því hvers vegna saksóknarar væru ekki byrjaðir að rannsaka málið níu mánuðum síðar sagði Le Drian að rannsóknin væri flókin. Flestir hermannanna séu ekki lengur að störfum í Mið-Afríkulýðveldinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert