Hafði æft hratt niðurflug

Andreas Lubitz
Andreas Lubitz AFP

Aðstoðarflugmaðurinn sem talinn er hafa flogið þotu Germanwings vísvitandi á fjall í frönsku Ölpunum hafði æft það að fljúga þotu hratt niður í flugferð áður. Þetta kemur fram í frétt þýska dagblaðsins Bild í dag.

Bild hefur eftir heimildum að Andreas Lubitz, 27 ára, hafi áður lækkað flugið hratt í um það bil eina mínútu án nokkurrar ástæðu á leiðinni Düsseldorf til Barcelona en flugvélin fórst á leiðinni til baka frá Barcelona til Düsseldorf. Þetta herma heimildarmenn Bild sem vinna við rannsókn á flugslysinu í Frakklandi. Þeir segja að þetta komi fram á flugrita þotunnar. Von er á bráðabirgðaskýrslu um flugslysið.

Airbus 320 þota Germanwings flugfélagsins var í áætlunarflugi milli Spánar og Þýskalands þegar henni var grandað þann 24. mars sl. Allir um borð, 150 manns, fórust.

Lubitz er talinn hafa grandað flugvélinni vísvitandi en hann hafði verið greindur með geðræn vandamál og í sjálfsvígshugleiðingum. En það var löngu áður og ekkert hafði bent til þess að hann ætlaði sér að fremja sjálfsvígsárás í viðtölum hjá geðlæknum skömmu fyrir slysið. Lubitz var hins vegar í meðferð hjá taugasjúkdómafræðingi og geðlækni og hafði skrifað veikindavottorð um að Lubitz væri óvinnufær - meðal annars þennan örlagaríka dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert