Íhaldsflokkurinn „augljós sigurvegari“ ef spáin rætist

David Cameron, leiðtogi Íhaldsflokksins, mætti á kjörstað ásamt eiginkonu sinni, …
David Cameron, leiðtogi Íhaldsflokksins, mætti á kjörstað ásamt eiginkonu sinni, Samönthu Cameron, í dag. AFP

Útgönguspáin sem lesin var upp fyrr í kvöld sýnir fordæmalausan stuðning við David Cameron að mati Michael Gove, þingflokksformanns Íhaldsflokksins, en hann var í viðtali hjá BBC fyrr í kvöld.

Samkvæmt útgönguspánni hlýtur Íhaldsflokkurinn 316 sæti, en 326 þarf til þess að mynda meirihluta. Ef spáin gengur eftir bætir flokkurinn við sig níu sætum síðan kosið var síðast árið 2010.

Gove sagði í viðtalinu að Cameron væri ánægður með spána. „Það þýðir að Íhaldsflokkurinn hefur augljóslega unnið þessar kosningar og Verkamannaflokkurinn hefur augljóslega tapað þeim,“ sagði Gove aðspurður hvað það þýðir ef spáin rætist.

Íhaldsflokkurinn gæti enn á ný litið til Frjálslyndra demókrata eftir stuðningi en samkvæmt útgönguspánni munu þeir aðeins fá tíu sæti á þinginu. Að sögn Gove hefur ríkjandi stjórn ekki bætt við sig jafn miklu fylgi síðan 1983.

Sagði Gove að útgönguspáin sýni það að þau skilaboð sem flokkurinn hefur sent frá sér í kosningabaráttunni hafa skilað sér. „Það er ef fólk vill tryggja efnahagslegt öryggi okkar þurfum við að sjá til þess að David sé á Downing stræti,“ sagði Gove en skrifstofa forsætisráðherra Bretlands er við Downing stræti í Lundúnum.

Gove sagði að það væri of snemmt að fara að ræða um mögulegar samningaviðræður milli flokka eftir kosningarnar. En ef að spáin rætist mun forsætisráðherrann byrja að skoða með hverjum Íhaldsflokkurinn getur skapað trausta ríkisstjórn strax á morgun. 

Að sögn Gove myndi Cameron hafa „töluvert vald“ í þeim viðræðum og þær „myndu alltaf skila honum góðum árangri“.

Talsmaður Cameron, Craig Oliver, sagði fyrr í kvöld að forsætisráðherrann væri ánægður með útgönguspána. Sagði hann jafnframt að Cameron ætlaði að vaka fram eftir og fylgjast með úrslitunum í kosningamiðstöð í Witney í Oxfordshire. Cameron snæddi kjötböku og brokkólí í kvöldmat ásamt eiginkonu sinni Samönthu.

Michael Gove, þingflokksformaður breska Íhaldsflokksins.
Michael Gove, þingflokksformaður breska Íhaldsflokksins. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert