Samkvæmt útgönguspá í bresku þingkosningunum sem fram fóru í dag fær skoski þjóðarflokkurinn 58 þingmenn (af 59 mögulegum í Skotlandi). Óhætt er að kalla það stórsigur fyrir flokkinn sem hlaut aðeins sex þingsæti í síðustu kosningum. Samkvæmt frétt AFP fréttaveitunnar gæti það skapað aukin þrýsting eftir annarri þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði Skotlands.
„Skilaboð mín eru þau að við munum standa með Skotlandi,“ sagði Nicola Sturgeon, leiðtogi flokksins við stuðningsmenn sína eftir að hún kaus í úthverfi Glasgow dag.
„Við munum leita eftir því að gera bandalög við fólk um allt Bretland til þess að sjá til þess að stjórnmál í Westminster verði betri,“ bætti hún við.
Aðeins eru átta mánuðir síðan að kosið var um sjálfstæði Skotlands. 55% þjóðarinnar kaus þá gegn því að Skotland myndi verða sjálfstætt ríki.
Forystumenn flokksins hafa sagst vera tilbúnir til þess að starfa með minnihlutastjórn sem yrði leidd af Verkamannaflokknum.
Sturgeon tjáði sig þó á Twitter stuttu eftir að útgönguspáin var lesin upp og bað stuðningsmenn flokksins um að fagna ekki sigri of fljótt. „Ég vonast eftir góðu kvöldi en ég held að 58 sæti sé ólíklegt!“ skrifaði hún á Twitter. „Sama hver úrslitin verða, þá er ég mjög stolt af kosningabaráttunni okkar.“