Nigel Farage formaður UKIP, Breska sjálfstæðisflokksins, verður ekki á þingi næstu fimm árin en hann tapaði í baráttunni um þingsæti í South Thanet. Þess er nú vænst að hann segi af sér formennsku á næstu mínútum. En hann hafði sagt að ef hann næði ekki kjöri þá myndi hann segja af sér innan tíu mínútna.
En þrátt fyrir tapið þá er Farage glaður í bragði og sagði við stuðningsmenn sína þegar úrslitin voru ljós: „Ég hef aldrei verið jafn hamingjusamur.“
Hann segir að margir gætu haldið að þetta væri slæmur dagur í lífi hans en fyrir fimm árum hafi hann verið á gjörgæsludeild eftir umferðarslys þannig að dagurinn í dag sé alls ekkert svo slæmur.
Farage beindi orðum sínum að Skoska þjóðarflokknum (SNP) og sagði að jarðskjálfti hafi riðið yfir í þessum kosningum og hann hafi riðið yfir við norðurlandamærin.
Englengdingar væru svo hræddir við SNP að þeir hafi hætt við að kjósa Ukip og þess í stað kosið Íhaldsflokkinn.
Hann segir að Ukip sé ekki lengur flokkur ofursta á eftirlaunum heldur sé Ukip flokkur fólks undir þrítugu. Einkum vinnandi kvenna. Að sögn Farage er orðið tímabært að breyta kosningakerfinu í Bretlandi.
„Hvernig getur flokkur - SNP - fengið 50% atkvæða en næstum því 100% sæta í Skotlandi? Hvernig getur Ukip fengið um þrjár milljónir atkvæða en aðeins eitt þingsæti?
Ég tel að það sé orðið tímabært, að gera róttækar breytingar og Ukip verður flokkurinn sem leiðir þær breytingar,“ segir Farage.
Þungum byrðum hefur verið létt af öxlum mínum... ég hef aldrei verið hamingjusamari, sagði Farage að lokum, samkvæmt Guardian.
Ef litið er á grafík sem fylgir með frétt Spiegel um kosningarnar í Bretlandi sést að skoðanakannanir hafa ekki verið langt frá niðurstöðunni því samkvæmt þeim átti Íhaldsflokkurinn að fá 34% atkvæða og einnig Verkamannaflokkurinn.
Íhaldsflokkurinn er nú með 36,8% en var með 36,1% árið 2010. Verkamannaflokkurinn er með 30,6% en fékk 29% 2010. Frjálslyndir demókratar eru með 7,7% en fékk 23% 2010. SNP er með 4,8% en var með 1,7%. Ukip er með 12,6% en var með 3,1%.
Þrátt fyrir þetta þá bætir Íhaldsflokkurinn við sig tugum þingmanna á meðan Verkamannaflokkurinn tapar tugum Skoski þjóðarflokkurinn (SNP) bætir við sig 50 þingsætum og Ukip kemur aðeins einum þingmanni að.
Uppfært klukkan 10:28
Farage hefur tilkynnt afsögn sína sem formaður Ukip en hann ætlar að taka sér hvíld frá störfum í sumar og íhuga hvort hann muni sækjast eftir flokksformennsku á ný í haust. Hann mælir með því að Suzanne Evans taki við sem starfandi leiðtogi flokksins.