Stórsigur Íhaldsflokksins

Það stefnir allt í stórsigur Íhaldsflokksins í Bretlandi en samkvæmt spá BBC bendir allt til þess að flokkurinn fái 331 þingsæti. David Cameron, formaður flokksins, gengur á fund drottningarinnar klukkan 11:30 og fær þar væntanlega umboð til þess að mynda nýja ríkisstjórn.

Nú þegar ljóst er hvernig 641 þingsæti skiptist af þeim 650 sem kosið er um þá er Íhaldsflokkurinn með 325 þingsæti - bætir við sig 22 sætum. Verkamannaflokkurinn 229 sæti tapar 26. Skoski þjóðarflokkurinn 56  - bætir við sig 50 sætum og Frjálslyndir demókratar eru með 8 þingsæti - tapa 47 þingsætum.

Formaður Frjálslyndra demókrata, Nick Clegg, hefur sagt af sér sem formaður flokksins en flokkurinn galt afhroð í kosningunum. Hann segir að ótti og gremja hafi haft sigur en frjálslyndi tapað. „En það er mikilvægara nú en nokkru sinni áður og við verðum að berjast áfram fyrir því,“ segir Clegg.

Að sögn Cleggs er auðvelt að ímynda sér að það sé engin leið til baka en það sé ekki rétt. „Þetta er dökkir tíma fyrir flokk okkar en við megum ekki og munum ekki heimila það að almennileg frjálslynd gildi hveri á einni nóttu.“

Hann segir að alls staðar í Evrópu eigi frjálslyndisstefnan undir högg að sækja í baráttunni við pólitískan ótta. Þjóðernishreyfingar sæki í sig veðrið víða um álfuna á kostnað frjálslyndra. 

Nigel Farage, formaður Breska sjálfstæðisflokksins (Ukip) náði ekki kjöri og hefur sagt af sér sem leiðtogi flokksins en Ukip er einungis með einn þingmann þrátt fyrir tæplega 13% fylgi.

Bætt við klukkan 11:14  Ed Miliband, formaður Verkamannaflokksins, hefur sagt af sér formennsku en flokkurinn nánast þurrkast út í Skotlandi.

Miliband segir að Harriet Harman, varaformaður flokksins, muni taka við formennskunni þar til nýr leiðtogi flokksins verður kjörinn. 

Hann þakkaði starfsfólki sínu og öllu því fólki sem lagði sitt af mörkum í kosningarbaráttunni. Að sögn Miliband hefur hann óskað Davið Cameron, formanni Íhaldsflokksins, til hamingju með sigurinn og að ræða hans nú sé ræða sem hann hefði viljað að hann þyrfti ekki að flytja. En Bretland þurfi á sterkum Verkamannaflokki að halda og það sé tímabært að einhver annar taki við formennskunni. 

Miliband sló einnig á létta strengi þó ljóst sé að þetta hefur verið erfiðar klukkustundir hjá honum. Hann þakkaði öllum þeim sem tóku sjálfsmynd (selfie) og sagði að myllumerkið #Milifandom sé sennilega eitt af því óvæntasta til þess að verða vinsælt á 21. öldinni.

Yngsti þingmaðurinn í 350 ár

Það er ljóst að Mhairi Black verður yngsti þingmaðurinn í Bretlandi næstu fimm árin en hún er aðeins tvítug að aldri. Hún er yngsti þingmaður Breta í 350 ár en Christopher Monck var aðeins þrettán ára gamall ern hann var kjörinn á þing árið 1667. 

Black hafði betur gegn fyrrverandi skuggaráðherra Verkamannaflokksins, Douglas Alexander í Paisley & Renfrewshire en Verkamannaflokkurinn hefur einokað þingsætið í sjötíu ár. 

Black, sem er þingmaður Skoska þjóðarflokksins, var að vonum ánægð þegar ljóst var að hún væri að setjast á þing. Þegar niðurstaðan lá fyrir sagðist Black ætla að vera þingmaður allra Skota og þar skipti engu hvaða skoðanir fólk hefði á framtíð Skotlands.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert