Vekur upp fjölda spurninga

Stórsigur Íhaldsflokksins í bresku þingkosningunum í gær vekur fjölda spurninga um framtíð breskra stjórnmála og stöðu breska samveldisins. Úrslitin eru gríðarleg vonbrigði og ósigur fyrir Verkamannaflokkinn og Frjálslynda demókrata, og er framtíð leiðtoga beggja flokka í tvísýnu.

David Cameron, forsætisráðherra og leiðtogi Íhaldsflokksins, er í sjálfu sér ekki í öfundsverðri stöðu. Nú þegar útlit er fyrir að hann haldi Downingstræti tekur við að efna kosningaloforðin, en meðal þeirra er þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild Bretlands að Evrópusambandinu árið 2017.

Cameron hefur heitið því að ná betri samningi til handa Bretum á þeim vettvangi og má gera ráð fyrir að umræður þar að lútandi muni skyggja á mörg þörf verk sem vinna þarf heima fyrir, svo sem að finna jafnvægi milli þess að viðhalda þeim árangri sem hefur áunnist í efnahagsmálum og standa vörð um heilbrigðisþjónustuna á sama tíma.

Þá stendur ríkisstjórn Cameron frammi fyrir öðrum stórsigri, en hann er Skoska þjóðarflokksins, sem sópaði til sín 56 þingsætum í kosningunum í gær. Líkur eru á að í kjölfarið verði enn rætt um mögulegan aðskilnað Skotlands og aðra þjóðaratkvæðagreiðslu.

Hvað Verkamannaflokkinn og Frjálslynda demókrata varðar er framtíðin óviss. Frjálslyndir koma hreint út sagt skelfilega út úr stjórnarsamstarfi sínu með Íhaldsflokknum og verða öðrum flokkum víti til varnaðar hvað varðar stjórnarsamstarf, sem var framandi hugmynd í Bretlandi fram til 2010.

Þegar hefur verið ýjað að því að Nick Clegg, leiðtogi Frjálslyndra demókrata, muni segja af sér, en útlit er fyrir að flokkurinn tapi 46 þingsætum frá síðustu kosningum og manni aðeins átta á nýju þingi.

Sömu sögu er að segja af Ed Miliband. Úrslit næturinnar eru gríðarleg vonbrigði fyrir leiðtogann, sem hafði pálmann í höndum sér samkvæmt skoðanakönnunum, en þær reyndust langt frá raunverulegu kosningafylgi flokkanna.

Missir þingsætis Ed Balls, fjármálaráðherra í skuggaráðuneyti Verkamannaflokksins og eins mikilvægasta bandamanns Miliband, þykir auka líkurnar á því að leiðtoginn víki til hliðar fyrir nýrri forystu og hefur bróðir hans, David, þegar verið nefndur í þessu samhengi, en einnig eiginkona Balls, Yvette Cooper.

Engin einhlít skýring er á því hvers vegna Verkamannaflokknum vegnaði ekki betur en raun ber vitni, og ítarleg naflaskoðun blasir við.

Von er á yfirlýsingum frá bæði Miliband og Clegg síðar í dag.

Ed Miliband, formaður Verkamannaflokksins.
Ed Miliband, formaður Verkamannaflokksins. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert