Leit er hafin að „legsteini“ Verkamannaflokksins; 2,6 metra háum minnisvarða úr kalksteini, sem í eru grafin kosningaloforð flokksins. Daily Mail hefur boðið kassa af kampavíni í fundarlaun og The Sun hefur opnað sérstaka ábendingalínu, en talsmenn Verkamannaflokksins hafa ekkert viljað tjá sig um hvar bautinn er niðurkominn.
Ed Miliband, leiðtogi Verkamannaflokksins, afhjúpaði steininn 3. maí sl. og var hafður að háði fyrir. Var steinninn m.a. kallaður „the Ed stone“, „the Milistone“ og pólitískur legsteinn leiðtogans. Þá líktu fjölmiðlar Miliband við Móses með boðorðin sín tíu.
Andstæðingar Verkamannaflokksins létu ekki hjá liggja að taka þátt í gríninu og kallaði Boris Johnson, nú þingmaður Íhaldsflokksins og borgarstjóri Lundúna, steininn „þyngsta sjálfsvígsbréf sögunnar“.
Að því er fregnir herma stóð til að reisa steininn í garði Downing-strætis eftir kosningarnar, en hann hefur nú horfið. Það sem gerir málið sérstaklega spennandi í augum breskra fjölmiðla er að forsvarsmenn Verkamannaflokksins fást ekki til ræða grjótið.
Það var afhjúpað í Hastings, á suðurströnd Englands, en samkvæmt AFP virtist enginn við á skrifstofum Verkamannaflokksins á staðnum, né könnuðust flutningafyrirtæki við að hafa séð til hans.
Harriet Harman, núverandi leiðtogi flokksins, sagði aðeins: „Við erum ekki búin að týna honum.“
Á steininum er m.a. að finna undirskrift Miliband, auk kosningaloforðanna sem voru sex í allt. „Þau eru meitluð í stein því það verður ekki horfið frá þeim eftir kosningarnar,“ sagði leiðtoginn á sínum tíma.
Einhver spaugari bauð steininn upp á eBay eftir kosningarnar, á heilt sterlingspund.