Felustaður mafíuforingja breytist í lögreglustöð

Riina var kallaður „Skepnan“ enda þótti hann vera hinn mesti …
Riina var kallaður „Skepnan“ enda þótti hann vera hinn mesti fantur. AFP

Felustaður Salvatore „Toto“ Riina, sem er fyrrverandi foringi ítölsku glæpasamtakanna Cosa Nostra, var í dag vígður sem ný bækistöð ítölsku herlögreglunnar í Palermo. Angelino Alfano, innanríkisráðherra landsins, var á meðal þeirra sem voru viðstaddir vígsluathöfnina.

Riina faldi sig í húsinu sem er við Via Bernini í borginni, eða þar til í janúar 1993 þegar hann var handtekinn. Þá hafði hann verið í 20 ár á flótta. Riina var kallaður „Skepnan“ því hann þótti vera mikill óþokki og fantur. 

Hann var lævís og harður húsbóndi sikileysku mafíunnar. Hann dvelur nú á bak við lás og slá eftir að hafa hlotið lífstíðardóm fyrir fjölmörg afbrot.

„Ríkið vann og mafían tapaði,“ sagði innanríkisráðherrann Alfano við athöfnina í dag.

Ítalska ríkið herti baráttuna gegn sikileysku mafíunni á tíunda áratug síðustu aldar. Þó að aðerðirnar hafi skilað árangri þá hefur Cosa Nostra enn mikil ítök, bæði efnahagsleg og pólitísk á sumums svæðum. 

Nýja lögreglustöðin ber nú nöfn tveggja lögreglumanna, þeirra Mario Trapassi og Salvatore Bertolotta, sem létust árið 1983 þegar ráðist var á dómarann Rocco Chinnici, sem barðist ötullega gegn mafíunni. Hann beið einnig bana í árásinni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka