Vill að Skotar fái aukin völd

Nicola Sturgeon, leiðtogi Skoska þjóðarflokksins.
Nicola Sturgeon, leiðtogi Skoska þjóðarflokksins. AFP

Nicola Sturgeon, leiðtogi Skoska þjóðarflokksins, vill að Skotar fái aukin völd í skatta- og velferðarmálum. Hún segir að þetta sé forgangsmál og muni gera skoskum stjórnvöldum kleift að efla hagkerfi landsins.

Sturgeon sagði í samtali við breska ríkisútvarpið, að hún hefði rætt stuttlega við David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, en það væri hins vegar ljóst að menn þyrftu að ræða þessi mál frekar. 

Þá sagði hún, að Skoski þjóðarflokkurinn væri nú helsti stjórnarandstöðuflokkurinn á breska þinginu. 

Þrátt fyrir að Verkamannaflokkurinn formlega séð helsti stjórnarandstöðuflokkurinn með 232 þingmenn, þá segir Sturgeon að stórsigur Skoska þjóðarflokksins í þingkosningunum á fimmtudag hafi sett þrýsting á breska Íhaldsflokkinn sem er nú einn í ríkisstjórn. Flokkur Sturgeons hlaut 56 þingsæti af 59 í Skotlandi. Flokkurinn er nú sá þriðji stærsti í Bretlandi, þrátt fyrir að hann hafi aðeins boðið fram í Skotlandi. 

Fyrir kosningarnar var breski Verkamannaflokkurinn með 41 þingmann í Skotlandi. Nú er hann aðeins með einn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert