Vopnaðir hópar í Mið-Afríkulýðveldinu hafa sleppt úr haldi 350 barnungum hermönnum, í samræmi við sáttamála við UNICEF. Fulltrúi samtakanna í Bangui, Mohamed Malick Fall, segir um að ræða stórt skref í átt til friðar, eftir tveggja ára átök.
Þúsundir barna eru talin á valdi vopnaðra hópa í landinu. Börnin sem sleppt var í dag hafa þegar gengist undir læknisskoðun og munu einnig fá sálrænan stuðning. Þá verður þess freistað að hafa uppi á fjölskyldum þeirra.
„Hvert þeirra þarfnast víðtæks stuðnings og verndunar, til að þau geti endurbyggt líf sitt og haldið áfram barnæsku sinni,“ sagði Fall.
Fyrrnefndur sáttmáli var undirritaður við sáttarviðræður í Bangui í vikunni.
UNICEF áætlar að á milli 6.000-10.000 börn séu enn í haldi vopnaðra hópa, en þau eru m.a. notuð í hernaði og sem kynlífsþrælar. Sameinuðu þjóðirnar hafa varað við því að Mið-Afríkulýðveldið „gleymist“.