Kviðdómur í Boston í Bandaríkjunum hefur komist að þeirri niðurstöðu að dæma skuli Dzhokhar Tsarnaev, sem stóð ásamt bróður sínum að sprengjuárásinni á maraþonið í borginni sumarið 2013, til dauða. Þrír létu lífið í árásinni og nokkur hundruð særðust.
Frá þessu er greint í frétt bandaríska dagblaðsins New York Times. Kviðdómurinn sakfelldi Tsarnaev í síðasta mánuði fyrir alla 30 ákæruliðina gegn honum. Þar af 17 sem vörðuðu dauðarefsingu. Refsing hans var hins vegar ákveðin í dag. Það tók kviðdóminn, sjö konur og fimm karla, 14 klukkustundir að komast að niðurstöðu.
Fram kemur í fréttinni að þetta sé í fyrsta sinn sem kviðdómur við alríkisdómstól dæmi hryðjuverkamann til dauða eftir árásirnar á Bandaríkin í september 2001. Saksóknarar í málinu héldu því fram að Tsarnaev væri kaldrifjaður hryðjuverkamaður sem iðraðist ekki gerða sinna og hefði viljað myrða saklausa Bandaríkjamenn í hefndarskyni fyrir saklausa múslima sem látið hefðu lífið í tengslum við stríðin í Afganistan og Írak undir forystu Bandaríkjanna.
Búist er við að dómnum verði áfrýjað og að málið kunni að verða mörg ár fyrir dómstólum enn og jafnvel áratugi líkt og mörg önnur þar sem einstaklingar hafa verið dæmdir til dauða í Bandaríkjunum. Rifjað er upp að af þeim 80 einstaklingum sem fengið hafi dauðadóm þar í landi frá árinu 1988 hafi aðeins þrír verið teknir af lífi. Flest málin séu enn fyrir dómstólum vegna áfrýjana, í sumum tilfellum hafi einstaklingar verið sýknaðir en í öðrum hafi hinir dæmdu látist. Annað hvort af eðlilegum orsökum eða þeir framið sjálfsvíg.