Umunna hættir óvænt við framboð

Chuka Umunna
Chuka Umunna AFP

Ein helsta stjarna breska Verkamannaflokksins, Chuka Umunna, dró sig skyndilega úr baráttunni um formannssæti flokksins í morgun en það eru aðeins þrír dagar síðan hann tilkynnti um framboð sitt.

Í tilkynningu til fjölmiðla og flokksmanna segir Umunna allt of mikinn þrýsting fylgja framboði til formanns Verkamannaflokksins. „Mér hefur ekki þótt það þægilegt upplifun,“ segir Umunna sem er 36 ára að aldri.

Á myndskeiði sem Umunna birti á Faceook á þriðjudag sagðist hann vilja verða formaður Verkamannaflokksins eftir að Ed Miliband, tilkynnti í síðustu viku að hann myndi láta af embættinu í kjölfar slæmrar útreiðar flokksins í þingkosningunum.

Veðbankarnir höfðu veðjað á Umunna en nú er Andy Burnham vinsælastur meðal þeirra sem veðja á hver verði næsti formaður Verkamannaflokksins. En auk hans hafa þau Yvette Cooper, Mary Creagh og Liz Kendall lýst yfir áhuga á embættinu.

Umunna hefur verið þingmaður Verkamannaflokksins í fimm ár en hann hefur vakið mikla athygli og hrifningu meðal þeirra sem hafa mikil áhrif á val á formanni flokksins. Má þar nefna fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, Tony Blair og fyrrverandi viðskiptaráðherra og framkvæmdastjóra viðskipta hjá framkvæmdastjórn ESB, Peter Mandelson.

Ef hann hefði verið kjörinn formaður Verkamannaflokksins þá hefði hann orðið fyrstur af annarri kynslóð innflytjenda til þess að verða formaður í stórum stjórnmálaflokki í Bretlandi. Umunna hefur sagt að faðir sinn hafi barist gegn spillingu í Nígeríu og að það hafi haft mikil áhrif á hann og stjórnmálaskoðanir hans. En þrátt fyrir vinsældir hafa verið efasemdir um hvort hann hefði næga reynslu til þess að gegna starfi formanns. 

Umunna lýsir sér sjálfur sem evrópskum jafnaðarmanni og hann segir að Verkamannaflokkurinn megi ekki vera hræddur við að segja að flokkurinn vilji aðstoða fólk við að eignast sína fyrstu milljón.

Faðir hans, Bennet Umunna, er innflytjandi frá Nígeríu og er af Igbo-ættbálknum. Hann kom til Liverpool og stóð þar á hafnarbakkanum á sjöunda áratugnum með allar sínar eigur í einni tösku. Hann stofnaði inn- og útflutningsfyrirtæki og sonur hans, Chuka Umunna, ólst upp í hinu litríka hverfi Streatham í suðurhluta Lundúna. Hann er nú þingmaður hverfisins. 

Móðir hans, Patricia Milmo, var lögmaður og dóttir hæstaréttardómarans Helenus Milmo, sem var saksóknari við Nürnberg-réttarhöldin.

Bennett lést í umferðarslysi í Nígeríu þegar Umunna var 13 ára gamall en hann hafði snúið þangað til þess að bjóða sig fram í baráttunni gegn spillingaröflum í landinu.

Umunna lærði lögfræði líkt og móðir hans og starfaði sem lögfræðingur þar til hann fór á þing.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert