Elskar hann enn 24 árum eftir skilnaðinn

Eddie Redmayne í hlutverki Stephen Hawking og Felicity Jones í …
Eddie Redmayne í hlutverki Stephen Hawking og Felicity Jones í hlutverki Jane Wilde

Fyrrverandi eiginkona Stephens Hawkings, Jane Hawking segir að sambúðin með honum hafi fyllt hana sjálfseyðingarhvöt en hún elski hann þrátt fyrir það.

Telegraph birti um helgina viðtal við Jane Hawking þar sem hún fer yfir sambúð þeirra hjóna og myndina The Theory of Everything sem byggir á bók hennar Travelling to Infinity.

Hún segist hafa gert tvær breytingar þegar hún fékk sent handrit myndarinnar. „Í fyrsta lagi tók ég út orðið háskólasvæði (Campus) þar sem Cambridge er lýst enda tölum við ekki um háskólasvæði á Englandi. Eins eyddi ég F orðinu sem kom tvisvar eða þrisvar fyrir á hverri síðu. Vísindamenn á sjöunda og áttunda áratugnum notuðu ekki F-orðið,“ segir Jane Hawkings. 

Hún hefði aldrei getað ímyndað sér að breska myndin sem var gerð fyrir litla peninga og tók tíu ár að verða að raunveruleika myndi ná þeim vinsældum og raun ber vitni. Myndin var tilnefnd til fimm Óskarsverðlauna, fernra Golden Globe verðlauna og tíu Bafta verðlauna.

Jane Hawkings er afar ánægð með Eddie Redmayne sem fór með hlutverk Stephens Hawkings í myndinni og segir að þegar hún hitti hann fyrst þá hafi hún verið orðlaus því hann minnti svo á fyrirmyndina á sjöunda áratugnum.

Einungis mánuði eftir að Jane og Stephan fella hugi saman þá greinist hann með  taugahrörnunarsjúkdóm MND/ALS, 22 ára að aldri. Honum er tjáð að hann muni lifa í tvö ár en þvert á allar spá þá er hann enn á lífi áratugum síðar. Þau ganga í hjónaband en líf þeirra er erfitt enda þarf hann á aðstoð að halda með alla daglega hluti. 

Hún viðurkennir í viðtalinu að hún hafi nokkrum sinnum verið á barmi sjálfsvígs svo reyndi á að hugsa um eiginmanninn og börn þeirra þrjú.

„Stephen sagði snemma við mig: þegar um líkamleg veikindi er að ræða þá ræður þú ekki við að andleg veikindi bætist við. Einhvern vegin þá heimfærði ég þetta á mig. En stundum var lífið svo hræðilegt , svo líkamlega og andlega erfitt að mig langaði að kasta mér í ána. En auðvitað gerði ég það ekki vegna barnanna.“

En þegar henni var sagt að eiginmaður hennar þyrfti aðstoð allan sólarhringinn, sem var eitthvað sem þau höfðu ekki ráð á nema með því að betla eftir aðstoð frá stofnunum í Bandaríkjunum, þá veitti það henni ekki þann létti sem hún átti von á.

„Frá þeirri stundu sem hjúkrunarfræðingarnir komu inn á heimili okkar til þess að líta eftir Stephen fór heimilislífið á hvolf. Okkur hinum var ýtt út í horn.“

En frægðarsól Hawkings reis hratt eftir útgáfu bókarinnar  A Brief History of Time - Saga tímans - en hún kom út árið 1988. Samband þeirra hjóna fór hins vegar versnandi og segir hún að alls konar fólk hafi komið sér fyrir í þeirra lífi með þeim afleiðingum að heimilið varð óþolandi staður til að vera. Að lokum skildu leiðir og Hawking kvæntist Elaine Mason sem annaðist hann og Jane giftist Jonathan Hellyer Jones organleikara. 

Í viðtalinu segist hún enn elska hann en ást hennar sé af öðru meiði en áður og ekki jafn ástríðufull en 24 ár eru liðin frá skilnaði þeirra.

Stephen Hawking
Stephen Hawking AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka