Obama dregur úr hervæðingu lögreglunnar

Lögreglan í Ferguson var grá fyrir járnum þegar hún dreifði …
Lögreglan í Ferguson var grá fyrir járnum þegar hún dreifði mótmælendum í fyrra. AFP

Bandarísku alríkisstjórninni verður ekki lengur heimilt að sjá lögreglu fyrir ákveðnum tegundum hergagna, samkvæmt ákvörðun Baracks Obama forseta. Umræður um hervæðingu lögreglunnar komust í hámæli í fyrra í kjölfar mótmælanna í Ferguson í Missouri vegna morðs lögreglumanns á unglingspilti.

Ákvörðun Obama um að herða reglur um hvaða búnað stjórnvöld mega afhenda lögregluembættum kemur á óvart en áður hafði stjórn hans gefið í skyn að þau myndu halda áfram að fá hergögn líkt og þau sem lögreglan notaði í Ferguson í fyrra. Þá mættu þungvopnaðir og brynklæddir lögreglumenn á brynvörðum farartækjum mótmælendum. Starfshópur sem Obama skipaði til að fara yfir hvernig hægt væri að auka traust almennings til lögreglunnar komst að þeirri niðurstöðu að töluverð hætta væri á að slíkur búnaður væri misnotaður og að hann væri til þess fallinn að grafa undan trausti fólks til lögreglunnar.

Nú verður alríkisstjórninni því bannað að fjármagna kaup eða gefa lögregluembættum brynvarin farartæki sem aka á teinum, vopnaðar flugvélar eða farartæki, skotvopn eða skotfæri með meira en .50 hlaupvídd, sprengjuvörpur, byssustinga eða feluklæðnað. Þá skoðar alríkisstjórnin einnig þann möguleika að innkalla slík hergögn sem þegar hefur verið dreift til lögreglunnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert