Fjórðungur róma-barna í fóstri

AFP

Tæplega helmingur róma-barna sem búa í Noregi hafa verið tekin í fóstur eða eiga það á hættu að vera tekin af foreldrum sínum, segir í skýrslu sem mannréttindastjóri framkvæmdastjórnar ESB, Nils Muižnieks, hefur látið vinna.

Skýrslan byggir á heimsókn mannréttindavaktar ESB til Noregs í janúar. Muiznieks segir í skýrslunni að 60 róma-börn séu þegar í fóstri og hætta sé á að 60 til viðbótar fari fljótlega í fóstur. Þetta er um helmingur allra róma-barna sem búsett eru í Ósló og nágrenni.

Er svo komið að margar róma-konur þora ekki að fara á sjúkrahús til þess að fæða börn sín af ótta við að barnið verði tekið af þeim á fæðingardeildinni af barnaverndaryfirvöldum.

Muižnieks segir þetta mikið áhyggjuefni hversu algengt það er að róma-börn séu send í fóstur í Noregi. Yfirvöld í Noregi hafa ekki tjáð sig um hvort þetta sé rétt sem kemur fram í skýrslunni

Norsk barnaverndaryfirvöld hafa sætt harðri gagnrýni frá stjórnvöldum annarra ríkja sem segja að börn af öðru þjóðerni séu sett í fóstur án þess að þau búi við alvarlegar aðstæður.

Muižnieks segir að eiturlyfjanotkun, heimilisofbeldi og barnungir foreldrar séu meðal helstu skýringa á því að róma-börn séu sett í fóstur en hann telur að norsk yfirvöld bregðist við af of mikilli hörku. Aðgerðir Norðmanna í garð róma-fólks sé mismunun, meðal annars með því að banna betl á götum úti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka