1.400 þekktir menn grunaðir

Jimmy Savile er aðeins einn þeirra þekktu einstaklinga sem hafa …
Jimmy Savile er aðeins einn þeirra þekktu einstaklinga sem hafa birst á radar lögreglunnar í yfirstandandi kynferðisbrotarannsóknum.

Sérsveit lögreglunnar á Bretlandseyjum hefur fengið ábendingar um fleiri en 1.400 einstaklinga í kynferðisbrotarannsóknum sem beinast gegn þekktum einstaklingum og stofnunum.

Að sögn Simon Bailey, sem fer fyrir sérsveitinni Operation Hydrant, voru 76 stjórnmálamenn, 43 einstaklingar úr tónlistarbransanum, 135 einstaklingar úr sjónvarps-, kvikmynda- og útvarpsgeiranum og 7 íþróttamenn meðal þeirra 1.433 sem voru rannsakaðir.

Bailey sagði að ábendingum fjölgaði dag frá degi og að fyrrnefndar tölur endurspegluðu aðeins stöðuna á ákveðnum tímapunkti. Operation Hydrant fer ekki fyrir eiginlegum rannsóknum meintra glæpa, heldur er hún miðlæg aðgerð sem snýr að upplýsingasöfnun.

Meðal einstakra rannsókna má nefna Operation Pallial, þar sem ásakanir um misnotkun á dvalarheimilum í norðurhluta Wales og skólanum Knowl View í Rochdale eru til umfjöllunar.

Að sögn Bailey voru 666 grunuðu taldir hafa brotið af sér innan stofnanna. Ásakanir hafa beinst að 154 skólum, 75 barnaheimilum og 40 trúarstofnunum, svo eitthvað sé nefnt.

Sérsveitin sagði einnig frá því að fjöldi tilkynninga um ný tilfelli kynferðisglæpa gegn börnum hefði tvöfaldast á þremur árum.

Guardian sagði frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka