Síðustu ár Osama Bin Laden hvatti hann fylgjendur sína til þess að einbeita sér áfram að árásum á Bandaríkin. Þetta er meðal þess sem kemur fram í skjölum Bin Laden sem birt voru í dag. Í skjölunum má sjá að Bin Laden lagði alltaf áherslu á að skipuleggja árásir á Bandaríkin og önnur Vesturlönd en bað undirmenn sína um að hunsa átök í Miðausturlöndum.
Yfirvöld í Bandaríkjunum birtu í dag skjöl sem fundust á heimili Bin Laden í Pakistan. Þar var hann drepinn af Bandaríkjamönnum árið 2011. BBC segir frá þessu.
Í skjölunum má sjá m.a. samskipti Bin Laden við undirmenn sína, ástarbréf til einnar eiginkonu sinnar og umsóknarskjal fyrir þá sem vildu ganga til liðs við al Qaeda. Bin Laden átti líka bækur á ensku um hagfræði og hernaðarfræði.
Í einu bréfi sem fannst á felustaðnum skipar Bin Laden undirmanni sínum að segja „bræðrum okkar“ að þeir þurfi áfram að einbeita sér að því að berjast við Bandaríkjamenn.
Samkvæmt upplýsingum frá yfirvöldum voru skjölin gaumgæfilega skoðuð áður en hægt var að birta þau opinberlega. Skjölin eru 103 talsins. Mörg þeirra lýsa starfsemi al-Qaeda og eru sum þeirra þýdd á arabísku.
Eitt bréf gerir grín af stríði Bandaríkjanna gegn hryðjuverkum og skrifar Bin Laden að stríð George Bush hafi ekki skapað stöðugleika í Írak eða Afganistan. Einnig fundust fjölmörg skjöl með upplýsingum um her Frakklands, stjórnmál og efnahagskerfi.
Einnig fannst myndband sem Bin Laden gerði handa eiginkonu sinni. „Þú veist að þú fyllir hjarta mitt af ást, fallegum minningum, og hefur þjáðst lengi til þess að sefa mig og vera góð við mig,“ segir Bin Laden við konu sína.
Umfjöllun BBC um skjölin í heild sinni má sjá hér.