Breskur dómstóll hefur dæmt fjölmiðlafyrirtækið Trinity Mirror til að greiða 1,2 milljónir punda í skaðabætur til þekktra einstaklinga sem urðu fyrir barðinu á símahlerunum blaðamanna fyrirtækisins.
Fyrirtækið á meðal annars Daily Mirror, Sunday Mirror og People.
Dómurinn nær aðeins til átta einstaklinga af fleiri en hundrað og hefur Trinity Mirror tilkynnt að sjóður sem settur var á laggirnar til að mæta kostnaði vegna málsins hafi verið stækkaður úr 12 milljónum punda í 18 milljónir punda.
Meðal þeirra sem voru dæmdar bætur eru leikkonan Sadie Frost og Paul Gascoigne, fyrrum fótboltakappi. Frost voru dæmd 260.250 pund, en um er að ræða hæstu skaðabætur sem greiddar hafa verið út frá því að símahlerunarmálið komst upp árið 2010.
Sími Frost var hleraður um nokkurt skeið, m.a. vegna tengsla leikkonunnar við Jude Law, sem er fyrrverandi eiginmaður hennar og barnsfaðir, og Kate Moss, vinkonu hennar til margra ára.
Við réttarhöldin var Trinity Mirror sakað um að hafa staðið fyrir símahlerunum á „iðnaðarskala“ og í mun stærri stíl en News of the World, sem hætti útgáfu eftir að uppljóstrað var um aðferðir þess.
Trinity Mirror gekkst við því að yfir 100 blaðagreinar sem skrifaðar voru um einstaklingana átta hefðu byggt á upplýsingum sem fengnar voru með því að hlera síma þeirra.
Skaðabæturnar sem fólkinu voru dæmdar eru mun hærri en þær sem News UK, útgáfufyrirtækið á bakvið News of the World, greiddi út til fórnarlamba blaðsins. Munurinn er sá að í tilfelli Trinity Mirror ákváðu fórnarlömbin að klára málið fyrir dómstólum. Lögmaður Frost sagði að henni hefði þótt afar mikilvægt að fara þá leið til að fá eins miklar upplýsingar og mögulegt var um atvik málsins.