Íhuga fyrirvaralausar skoðanir

Lufthansa er móðurfélag Germanwings.
Lufthansa er móðurfélag Germanwings. AFP

Stjórnendur þýska flugfélagsins Lufthansa velta því nú fyrir sér að taka upp fyrirvaralausar læknisskoðanir til að koma í veg fyrir atvik á borð við það þegar flugmaður Germanwings, dótturfélags Lufthansa, grandaði vél félagsins í frönsku Ölpunum í mars sl.

150 létu lífið, farþegar og áhöfn.

Framkvæmdastjóri Lufthansa, Carsten Spohr, ræddi þennan möguleika í samtali við Frankfurter Allgemeine Zeitung. Hann sagði mögulegt að tekið yrði upp á því að láta flugmenn gangast undir læknisskoðanir án fyrirvara. Þá sagði hann að í ákveðnum tilvikum þyrfti e.t.v. að leysa lækni undan trúnaði við sjúkling sinn, til að gera honum kleift að koma áhyggjum sínum um viðkomandi á framfæri.

Skoðanir af þessu tagi gætu t.d. komið upp um lyfjaneyslu flugmanna.

Í kjölfar harmleiksins í mars ákvað Lufthansa að það yrðu aldrei færri en tveir í flugstjórnarklefanum á sama tíma. Andreas Lubitz, flugmaðurinn sem grandaði vél Germanwings, læsti flugstjórnarklefanum eftir að hinn flugmaður vélarinnar hafði brugðið sér frá og virðist hafa verið einn í klefanum þegar vélin fórst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert