Vopnahléi aflýst í Kólumbíu

Juan Manuel Santos, forseti Kólumbíu, ræðir við fjölmiðla.
Juan Manuel Santos, forseti Kólumbíu, ræðir við fjölmiðla. AFP

Skæruliðasamtökin FARC í Kólumbíu aflýstu í dag vopnahléi, sem hafði verið í gildi í fáeina mánuði, vegna loftárása kólumbíska stjórnarhersins á bækistöð samtakanna í gær. 26 manns létu lífið í árásunum.

FARC lýstu yfir vopnahléi í desember síðastliðnum og markaði það stórt skref í þriggja ára friðarviðræðum samtakanna við stjórnvöld í Kólumbíu. En spennan hefur farið í vaxandi í landinu að undanförnu, sér í lagi eftir að uppreisnarmenn felldu ellefu stjórnarhermenn í árás í síðasta mánuði.

Töldu stjórnvöld að FARC hafi verið að baki árásinni og fyrirskipaði Juan Manuel Santos, forseti Kólumbíu, í kjölfarið loftárásir á bækistöðvar skæruliðasamtakanna.

Í gærkvöldi nýtti stjórnarherinn heimildina í fyrsta sinn með þeim afleiðingum að 26 manns létu lífið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert