Segist bera ábyrgð á lekanum

Nicola Sturgeon, leiðtogi Skoska þjóðarflokksins var í minnisblaðinu sögð frekar …
Nicola Sturgeon, leiðtogi Skoska þjóðarflokksins var í minnisblaðinu sögð frekar vilja sjá David Cameron sem forsætisráðherra heldur en Ed Miliband. AFP

Það vakti mikla athygli í miðri kosningabaráttu fyrir þingkosningarnar í Bretlandi þegar minnisblað lak í fjölmiðla þar sem Nicola Sturgeon, leiðtogi Skoska þjóðernisflokksins, var sögð frekar vilja sjá David Cameron sem forsætisráðherra heldur en Ed Miliband.

Á Sturgeon að hafa látið ummælin falla í samtali við sendiherra Frakklands í Skotlandi. Var hún sögð hafa talið Miliband ekki vera forsætisráðherraefni. 

Nú hefur opinber rannsókn leitt í ljós að Alistair Carmichael, fyrrverandi Skotlandsráðherra, er sá sem ber ábyrgð á lekanum og hefur hann nú gengist við því í samtali við The Telegraph. Segist hann ekki persónulega hafa lekið minnisblaðinu en að hann hafi vitað af því, og ekki gert neitt í því. Sturgeon hefur nú krafist þess að Carmichael segi af sér sem þingmaður en hann var kjörinn á þing í kosningunum, sem eini fulltrúi Frjálslyndra demókrata í Skotlandi eftir að flokkurinn missti 10 af 11 þingsætum til Skoska þjóðernisflokksins.

„Ég ber fulla ábyrgð á lekanum og hef beðið bæði Sturgeon og franska sendiherran afsökunar,“ segir Carmichael. Hann neitar fyrir að lekinn hafi verið af pólitískum ástæðum. „Ef ég væri enn ráðherra þá myndi ég íhuga alvarlega að segja af mér,“ segir Carmichael.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka