Talning atkvæða hafin

Kosningaþátttakan er sögð hafa verið mjög góð, samanborið við fyrri …
Kosningaþátttakan er sögð hafa verið mjög góð, samanborið við fyrri þjóðaratkvæðagreiðslur í landinu. AFP

Kjörstaðir á Írlandi lokuðu klukkan 22 í gærkvöldi í þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort heimila eigi hjónabönd samkynhneigðra og hófst talning atkvæðanna klukkan 9 nú í morgun.

Kjörsóknin í gær er talin hafa verið „óvenjulega góð“ samkvæmt fjölmiðlum í landinu. Verði hjónabönd samkynhneigðra heimiluð, verður Írland fyrsta landið sem lögleiðir slíkt í gegnum þjóðaratkvæðagreiðslu.

Samkvæmt RTÉ, ríkissjónvarpsstöð Íra, var kosningaþátttaka mun hærri en í fyrri þjóðaratkvæðagreiðslum á flestum svæðum í landinu. Í Dublun, Limerick og Waterford kusu meiri en 60% íbúa og í Cork, Carlow, Kilkenny, Donegal, Tipperary, Kerry og Galway var þátttakan meiri en 50%.

Úrslitin verða tilkynnt í Dublinarkastala í dag þar sem búist er við að 2 þúsund manns komi saman, auk fleiri sem munu fylgjast með tilkynningunni á stórum skjá fyrir framan kastalann. Mörg atkvæði voru einnig greidd utankjörfundar, bæði á spítulum og á elliheimilum. Þá er einnig greint frá því að margir brottfluttir Írar hafi snúið aftur til heimalandsins til þess að taka þátt í atkvæðagreiðslunni þar sem ekki var heimilt að greiða atkvæði í gegnum póst.

22 ár eru síðan lögunum í Írlandi var breytt og samkynhneigð varð lögleg. Árið 2010 var samkynhneigðum pörum í skráðri sambúð veitt sömu réttindi og gift pör. Þrátt fyrir það er stór munur á stöðu samkynhneigðra para og gagnkynhneigðra hjóna. Einn munurinn er sá að hjónaband gagnkynheigðra er viðurkennt af stjórnarskránni.

Sjá frétt mbl.is: Kjörsóknin góð á Írlandi

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka