Kjarnorkuver í suðurhluta Japans fékk síðasta leyfið sem það þarf til að kveikja aftur á kjarnaofnum sínum í dag. Það verður þá fyrsta kjarnorkuverið til að taka aftur til starfa samkvæmt nýjum öryggisreglum sem settar voru eftir kjarnorkuslysið í Fukushima árið 2011.
Öryggisáætlun Sendai-kjarnorkuversins sem er í eigu Kyushu-raforkufyrirtækisins felur nú í sér neyðarráðstafanir ef eldsvoði, flóð, aðrar náttúruhamfarir eða alvarleg slys eiga sér stað. Kjarnorkueftirlitsstofnun Japans hefur nú veitt síðasta leyfið sem þarf til að hægt sé að ræsa tvo kjarnaofna versins á nýjan leik.
Nú þarf aðeins vettvangsathugun í verinu áður en raforkuframleiðsla getur hafist þar aftur. Kyushu áætlar að annar ofninn verði ræstur seint í júlí og hinn seint í september þó að tafir séu hugsanlegar.
Slökkt er á öllum fjörutíu kjarnaofnum Japans þessa stundina, ýmist vegna viðgerða eða öryggiseftirlits.