Man Haron Monis, sem gerði árás á kaffihús í Sydney í Ástralíu í lok síðasta árs, gæti hafa glímt við geðklofa. Þetta sagði geðlæknir hans fyrir dómi í morgun. Monis myrti gest og starfsmann kaffihússins og vakti árásin mikinn óhug meðal Ástrala.
Verið er að rannsaka hvort Monis hafi verið undir áhrifum frá hryðjuverkasamtökunum íslamska ríkinu eða hvort um hafi verið að ræða geðveikan einstakling sem tengist samtökunum ekki á neinn hátt.
Monis var vísað til geðlæknis í maí árið 2010 eftir að hann leitaði kom á sjúkrahús með svima. Læknirinn sem hann hitti í kjölfarið kom fyrir dóminn í morgun segir að hann hafi ítrekað reynt að koma sér undan því að svara spurningum.
Þó sagði hann meðal annars að honum liði eins og sífellt væri fylgst með honum, jafnvel þegar hann væri á baðherberginu. „Ég tel að hann hafi glímt við ólæknandi geðklofa og ég vildi að hann tæki lyf,“ sagði læknirinn.
Monis fékk lyf og virtist honum líða betur eftir að hann fór að taka þau. Snemma árs 2011 hætti hann þó að taka lyfin og nokkrum mánuðum síðar hætti hann að koma til læknisins.
Eftir sextán klukkustunda umsátur á kaffihúsinu gerði lögregla áhlaup og féll Monis fyrir hendi lögreglu.