Sex stjórnendur FIFA, Alþjóðaknattspyrnusambandsins, voru handteknir snemma í morgun í Sviss. Þeir verða framseldir til Bandaríkjanna vegna gruns um aðild að spillingarmáli.
Sexmenningarnir voru handteknir á Baur au Lac hótelinu í Zürich en þar verður ársfundur FIFA haldinn á föstudag. Á fundinum verður meðal forseti FIFA kjörinn en hinn umdeildi Sepp Blatter óskar eftir endurkjöri, fimmta kjörtímabilið í röð. Hann er ekki meðal hinna handteknu, segir í fréttum BBC og New York Times. Blatter neitaði því nýverið að vera til rannsóknar hjá bandarísku alríkislögreglunni í tengslum við fjársvikarannsókn.
Mennirnir eru meðal annars sakaðir um peningaþvætti, fjárglæfrastarfsemi og rafræn fjársvik á undanförnum tuttugu árum.
Í frétt NYT kemur fram að óeinkennisklæddir lögreglumenn hafi fengið afhenta herbergislykla mannanna í móttöku hótelsins þar sem þeir gistu. Farið upp í herbergi þeirra og handtekið. Allt fór þetta friðsamlega fram en um er að ræða fimm stjörnu hótel með útsýni yfir Alpana og Zürich-vatn.
Einn hinna handteknu, Eduardo Li frá Kosta Ríka var leiddur út af lögreglumönnum um hliðarútgang hótelsins. Hann var með farangur sinn, kyrfilega merktur FIFA.
Samkvæmt NYT tengist rannsóknin útbreiddi spillingu innnan FIFA undanfarna tvo áratugi, meðal annars óskum ríkja um að halda heimsmeistarakeppnina ofl.
NYT segir að ákæra verði gefin út á hendur tíu stjórnenda og stjórnarmanna hjá FIFA til viðbótar en þeir eru ekki allir staddir í Zürich. Meðal þeirra eru Jeffrey Webb frá Cayman Islands, varaforseti framkvæmdastjórnar FIFA, Eugenio Figueredo frá Úrúgvæ og Jack Warner frá Trinidad and Tobago, fyrrverandi stjórnarmaður í framkvæmdastjórn FIFA.
Í tilkynningu frá svissneska dómsmálaráðuneytinu eru mennirnir grunaðir um að hafa átt aðild að mútugreiðslum fyrir meira en 100 milljónir Bandaríkjadala í rómönsku Ameríku. Múturnar tengdust meðal annars samningum við fjölmiðla, markaðsfyrirtæki og styrktaraðila að stórviðburðum á knattspyrnusviðinu.
Dómsmálaráðuneytið segir að mennirnir hafi verið handteknir að beiðni bandarískra yfirvalda en þar í landi var samið um að fremja glæpina og þeir undirbúnir. Eins fóru greiðslurnar til þeirra fram í gegnum bandaríska banka.
Talsmaður FIFA vildi ekki tjá sig í morgun um málið við fjölmiðla og sagði að sambandið væri að skoða gögn málsins.
Bætt við klukkan 7:50
FIFA hefur boðað til blaðamannafundar í Zürich vegna málsins klukkan 11 að staðartíma, klukkan 9 að íslenskum tíma.