James Holmes, sem er ákærður fyrir að hefja skothríð í kvikmyndahúsi í Colorado í Bandaríkjunum í júlí 2012, segist hafa öðlast aukna sjálfsvirðingu við dauða hvers og eins þeirra tólf sem létust í skothríðinni.
Þetta kemur fram í myndböndum af viðtölum geðlæknanna William Reid og Jeffrey Metzner við Holmes sem birt voru kviðdómnum í gær. „Ég varð tólf sinnum meira virði en áður,“ sagði Holmes í einu viðtali við geðlæknana. „Allt sem þau höfðu áorkað í lífinu fór út úr þeim og var gefið mér.“
Hann segist þó harma dauða eins fórnarlambs síns sem var 6 ára gamalt barn þar sem áform hans hafi verið að lágmarka tölu barna sem slösuðust í árásinni. Þar af leiðandi hafi hann framið árásina á sýningu á mynd sem var bönnuð innan 13 ára, og það seint um kvöld.
Réttarhöld yfir Holmes hafa nú staðið fyrir í fimm vikur. Gera má ráð fyrir því að réttarhöldin taki um fjóra mánuði. Fyrstu vikurnar fóru í vitnisburð fórnarlamba Holmes, ástvina þeirra sem létust og lögreglufólks. Nú er andleg heilsa Holmes þó í brennidepli og munu fyrrnefndir geðlæknar segja til um hvort hann hafi verið með réttu ráði þegar hann framdi glæpinn sem er eitt versta fjöldamorð í sögu Bandaríkjanna.
Annar geðlæknirinn, Reid, hefur þegar lýst því yfir að Holmes hafi verið löglega heill á geði þegar hann gerði árásina. „Hann hefur gert það ljóst að morðin hafi verið þess virði,“ sagði hann.
Verjendur Holmes segja hann glíma við alvarlegan geðklofa sem geri það að verkum að hann þekki ekki muninn á réttu og röngu. Þeir vilja að hann verði færður á geðsjúkrahús, en saksóknarar vilja hins vegar að hann verði dæmdur til dauða. Holmes hefur ekki gefið fulla játningu fyrir dómi.
Í myndböndunum segir Holmes að hann hafi vitað að það sem hann gerði var ólöglegt og talaði um atburðinn sem glæp. Þá hefur stílabók sem sýnir áform Holmes um árásina verið lögð fram sem sönnunargagn, en þar lýsir hann langvarandi hatri sínu á mannkyninu.