Nakti kúrekinn stefnir á forsætisráðherrastólinn

Danski kúrekinn John Erik Wagner
Danski kúrekinn John Erik Wagner

Danski kúrekinn John Erik Wagner, 51 árs, er sá frambjóðandi til þingkosninganna sem sennilega hefur vakið mesta athygli en hann býður sig fram sem næsti forsætisráðherra. 

Samkvæmt Guardian hefur honum heldur betur tekist að vekja athygli. Fólk hættir að tala í miðjum klíðum, námsmenn hætta að taka sjálfsmyndir og foreldrar taka fyrir augu ungra barna. Ástæðan er risastór auglýsingaskilti þar sem Wagner er ekki klæddur öðru en byssubelti og Stetson kúrekahatti, vopnaður glotti. 

Wagner stefnir á toppinn - hann ætlar sér að verða næsti forsætisráðherra Danmerkur en býður sig fram utanflokka.

Í viðtali við Guardian segir Wagner, sem býr í Kaupmannahöfn, að þetta sé í þriðja skiptið sem hann bjóði sig fram til danska þingsins og hingað til hafi framboðin ekki skilað árangri. „Svo ég ákvað að reyna eitthvað nýtt.  Auglýsingaskilti annarra frambjóðenda eru leiðinleg - bara eins og vegabréfsmyndir - svo mig langaði að mitt yrði eitthvað sem kæmi fólki á óvart,“ segir Wagner.

Hann bætir við að það hjálpi til að líta vel út ef þú ætlar að verða ráðherra og honum hafi alltaf verið sagt að hann væri með flottan líkama. Þannig að hann hafi ákveðið að láta slag standa.

Meðal baráttumála kúrekans nakta er að tannlæknaþjónusta verði gjaldfrjáls í Danmörku og að atvinnuleysisbætur verði hækkaðar en Wagner er einmitt atvinnulaus.

Fyrir þá sem vilja kynna sér stefnumál Wagners og skoða fleiri myndir af honum er bent á Facebooksíðu frambjóðandans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka