James Holmes vildi láta stöðva sig

Hér má sjá kvikmyndahúsið þar sem James Holmes myrti tólf …
Hér má sjá kvikmyndahúsið þar sem James Holmes myrti tólf manns. AFP

Kviðdómarar í Colorado fylki hafa síðustu daga horft  á 22 klukkustundir af myndböndum sem sýna viðtöl geðlæknisins William Reid við fjöldamorðingjann James Holmes sem fram fóru á síðsta ári. Holmes er ákærður fyrir að hafa drepið tólf manns í kvikmyndasal í júlí 2012. Verjendur Holmes reyna nú að halda því fram að hann hafi ekki verið heill á geði þegar árásin var framin.

Holmes lýsir því m.a. á myndböndunum að hann hafi dokað við fyrir utan kvikmyndahúsið í nokkrar mínútur áður en hann gekk þangað inn og hóf skothríðina. Hann hélt að hugsanlega gæti starfsmaður símaþjónustu fyrir andlega veika fengið hann ofan að því að fremja glæpinn. Jafnframt hélt hann að kannski myndi alríkislögreglan stöðva hann.

Holmes hringdi í símaþjónustuna en símtalið slitnaði eftir aðeins níu sekúndur, áður en einhver náði að svara. Alríkislögreglan kom heldur ekki, þó svo að Holmes grunaði að lögreglumenn fylgdust með honum.

Eftir að hafa hikað í nokkrar sekúndur í viðbót, gekk Holmes inn, kastaði táragasi inn í kvikmyndasalinn og hóf skothríð. Tólf létust í skotárásinni sem er eitt versta fjöldamorð í sögu Bandaríkjanna.

Heyrði aðeins eitt öskur

Í viðtalinu segist Holmes muna eftir að hafa heyrt eitt öskur og séð eitt fórnarlamb af þeim tólf sem létu lífið. Fyrir utan það man hann ósköp lítið.

„Á þeim tímapunkti var ég á sjálfstýringu,“ sagði Holmes með daufri og tilfinningalausri rödd á myndbandinu.

Verjendur Holmes halda því fram að hann þjáist af geðklofa sem hafi haft áhrif á skilningi hans á réttu og röngu. Þeir halda því jafnframt fram að Holmes þurfi að vera á geðsjúkrahúsi það sem eftir er ævi hans.

En saksóknarar í málinu halda því fram að Holmes sé sekur og að taka ætti hann af lífi. Þeir segja að andleg heilsa Holmes falli ekki undir skilgreiningu Colorado fylkis á geðveiki sem felst m.a. í því að þekkja ekki muninn á réttu og röngu.

Reid hefur sagt kviðdómurum að hann telji að Holmes hafi verið andlega veikur en löglega heill á geði þegar árásin var framin.

Með raftónlist í gangi á hæsta styrk

Á myndbandi sem var sýnt í dómsal í gær má sjá Holmes lýsa fyrir Reid þegar hann hringdi í hjálparlínuna rétt fyrir árásina. Að sögn Holmes gerði hann það á meðan hann var að gera sig tilbúinn, þ.e. klæða sig í búning og hengja á sig riffil, haglabyssu og skammbyssu.

„Af hverju hringdirðu?“ spurði Reid.

„Þetta var síðasta tækifæri til þess að sjá hvort ég gæti snúið til baka,“ svaraði Holmes sem efaðist þó um að hægt hafi verið að sannfæra hann um að hætta við á þeim tímapunkti. 

Holmes lýsti því hvernig honum leið, og hvað hann sá og heyrði í kvikmyndasalnum. Hann sagðist ekki hafa séð vel vegna gasgrímunnar. Hann man ekki eftir því að hafa heyrt mikið, ekki einu sinni raftónlistina sem hann var með í eyrunum allan tímann á hæsta styrk. 

Hefði átt að læsa hann inni

Hann tók ekki upp riffilinn fyrr en hann var búin með öll önnur skotfæri, þar á meðal sex skothylki fyrir haglabyssu. Þá skaut hann að sætum kvikmyndasalsins með rifflinum. „Hvað með fólkið?“ spurði Reid. „Fólkið var að fela sig bakvið sætin,“ svaraði Holmes.

Hann hélt áfram að skjóta þar til riffillinn hætti að virka. Hann náði ekki að setja skotfæri í hann og ákvað því að ganga út úr salnum. Hann var handtekinn þar fyrir utan.

Í viðtalinu við Reid sagði Holmes að hann hefði viljað að Lynne Fenton, geðlæknir sem hann var hjá fyrir skotárásina, hefði látið læsa hann inni. „Ég eiginlega harma það að hún læsti mig ekki inni svo að það hefði verið hægt að komast hjá þessu,“ sagði Holmes.

Hann viðurkenndi þó fyrir Reid að hann hefði passað sig á að Fenton kæmist ekki að áætlunum hans.

Reid sagði við yfirheyrslu við réttarhöldin að það, að Holmes hefði viljað vera læstur inn fyrir skotárásina, gefi til kynna að hann hafi þekkt muninn á réttu og röngu. „Það gefur sterklega til kynna að hann vildi vera stöðvaður í því að gera eitthvað rangt.“

Umfjöllun Time um málið. 

James Holmes
James Holmes AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka