Fyrsta barnaveikitilfellið í tæp 30 ár

Foreldrar drengsins eru sagðir hafa neitað að láta bólusetja hann.
Foreldrar drengsins eru sagðir hafa neitað að láta bólusetja hann. Sigurður Jökull

Sex ára gamall drengur er sá fyrsti sem greinist með barnaveiki á Spáni í tæp þrjátíu ár. Þrátt fyrir að bólusetningar gegn sjúkdómnum séu aðgengilegar völdu foreldrar hans að láta ekki bólusetja hann. Einn af hverjum tíu sjúklingum láta lífið vegna fylgikvilla af fyrstu einkennum sjúkdómsins.

Drengurinn, sem býr í bænum Olot í Katalóníu, er nú til meðferðar í Barcelona. Tilfellið er það fyrsta á Spáni frá árinu 1986. Erfitt reyndist að finnst mótefni gegn sjúkdómnum vegna þess hversu fátíður hann er eftir að bóluefni kom til sögunnar. Heilbrigðisráðuneyti landsins leitaði til Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar og bandarískra yfirvalda áður en skammtur af mótefninu fannst í Rússlandi. Rússneski sendiherrann á Spáni kom með mótefnið til landsins á mánudag, að því er kemur fram í frétt Time.

Barnaveiki leggst helst á fólk yfir sextugu og börn undir fimm ára aldri. Bakteríusýkingin dreifist í lofti og með snertingu. Hún getur valdið hjartatruflunum, taugaskemmdum og alvarlegum öndunarfæraeinkennum.

Í frétt spænska blaðsins El País kemur fram að móðir drengsins sé sjúkraþjálfari sem starfar við hómópatastofu í Olot. Ástand drengsins er sagt vera alvarlegt. Heilbrigðisyfirvöld hafi látið styrkja bólusetningar þeirra sem voru í nánu samneyti við drenginn og gefið þeim fyrirbyggjandi lyfjagjöf.

Rubén Moreno, landlæknir Spánar, segir að herferðir andstæðinga bólusetninga séu óábyrgar.

„Afleiðingar þess að bólusetja ekki barn geta verið alvarlegar. Réttur til bólusetninga er fyrir börnin en ekki fyrir foreldrana að velja,“ segir Moreno.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert