Lambert fær að deyja

Rachel Lambert, eiginkona Vincent Lambert, í dómsal. Maður hennar fær …
Rachel Lambert, eiginkona Vincent Lambert, í dómsal. Maður hennar fær að deyja eftir að hafa verið í dái í 7 ár. AFP

Mannréttindadómstóll Evrópu hefur staðfest niðurstöðu dómstóls í Frakklandi þess efnis að gefið verði leyfi fyrir því að slökkva á búnaði sem heldur lífi í heiladauðum manni. Vincent Lambert, 40 ára, hefur verið í dái í sjö ár eftir að hafa lent í mótorhjólaslysi. Fjölskylda hans er klofin í afstöðu sinni hvort það eigi að halda honum á lífi.

Málið var tekið fyrir hjá Mannréttindadómstólnum í fyrra eftir að yfirréttur í Frakklandi hafði heimilað að slökkt yrði á búnaðinum sem heldur honum á lífi. Miklar umræður sköpuðust í kjölfarið í Frakklandi en líknadráp eru ólögleg þar og skiptist franska þjóðin í hópa með og á móti líknadrápum.

Lambert hefur verið haldið á lífi með á mat­ar- og vökv­a­gjöf á spítala í Reims. Eiginkona hans og hluti af systkinum eru sammála læknum sem hafa mælt með því að matar- og vökvagjöfinni verði hætt þar sem engin von er á að hann nái bata.

En for­eldr­ar hans, sem eru kaþólsk og afar heit­trúuð, og tvö systkini hans, segja að lífi hans sé ekki lokið og hann þurfi einfaldlega betri umönnun. Dómurinn í Strasbourg dæmdi í málinu og sagði að ákvörðunin um að hætta að gefa Lambert næringu brjóti ekki í bága við mannréttindalög Evrópu.

„Þessari ákvörðun fylgir enginn léttir eða gleði. Við viljum bara að það sem hann hefði viljað verði gert,“ sagði Rachel, eiginkona Lambert, eftir dómsuppkvaðninguna.

Frétt BBC um málið.

Frétt mbl.is um málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert