Fórnarlömb harðneskjulegrar löggjafar

Mannréttindasamtök víða um heim hafa fordæmt löggjöfina á Írlandi.
Mannréttindasamtök víða um heim hafa fordæmt löggjöfina á Írlandi. Ljósmynd/Amnesty International

Á hverjum degi ferðast 10-12 konur frá Írlandi til Englands til þess að gangast undir fóstureyðingu. Meirihluti kvennanna er á aldrinum 20-34 ára, en aðstæður þeirra eru ólíkar. Þær eiga það hins vegar allar sameiginlegt að búa í landi þar sem fóstureyðingar eru refsiverðar, nema í þeim tilfellum þegar þungunin ógnar beinlínis lífi þeirra.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu Amnesty International, sem ber heitið Hún er ekki glæpamaður - Áhrif fóstureyðingalöggjafar Írlands.

Konur sem gangast undir fóstureyðingu á Írlandi, og heilbrigðisstarfsfólk sem veitir slíka þjónustu, á yfir höfði sér allt að 14 ára fangelsi. Löggjöfin hefur m.a. orðið til þess að konur eru í sumum tilfellum tilneyddar til að bíða þar til ástand þeirra versnar og verður slíkt að þær fá loks heimild til að ganga undir aðgerðina.

Lögin sem banna fóstureyðingar ná einnig til þeirra tilfella þegar um er að ræða þungun í kjölfar nauðgunar og/eða sifjaspells. Þá er jafnframt ólöglegt að gangast undir fóstureyðingu í þeim tilvikum þegar fóstrið er verulega fatlað og ekki hugað líf.

Eftirfarandi tölur er að finna í skýrslunni:

  • Frá 1971 hafa 177.000 konur hafa ferðast frá Írlandi til Englands og Wales til að gangast undir fóstureyðingu.
  • Árið 2013 ferðuðust a.m.k. 3.679 konur frá Írlandi til annarra landa til að sækja sér þessa þjónustu.
  • Heilbrigðisstarfsmenn sem vísa konum í fóstureyðingu eða gefa upplýsingar um framkvæmdina eiga yfir höfði sér sekt sem nemur 4.000 evrum.
  • Áætlaður meðalkostnaður við að ferðast erlendis til að gangast undir fóstureyðingu nemur á bilinu 1.000-1.500 evrum.
  • 43 Evrópulönd heimila fóstureyðingar, fimm ekki. Þau eru Írland, Andorra, Malta, Pólland og San Marínó.

Í skýrslunni er að finna fjölda dæma af konum sem hafa borið skaða vegna löggjafarinnar.

Þar er m.a. sagt frá Lupe, konu sem var neitað um fóstureyðingu jafnvel þótt henni blæddi verulega. Hún neyddist til að ferðast til Spánar til að fá þá læknisþjónustu sem hún þurfti á að halda.

Lupe segir að læknar á Írlandi hafi neitað að gera nokkuð, þrátt fyrir að fóstrið sýndi engin merki lífs.

„Við sáum fóstrið fullkomlega. Þetta var agnarsmátt 3 mm fóstur... dáið, ég var eyðilögð. Það hætti að vaxa á fjórðu eða fimmtu viku. Það þýðir að ég gekk með dáið fóstur inni í mér í meira en tvo mánuði,“ segir Lupe.

Hún óttaðist að hljóta sömu örlög og Savita Halappanavar, en hún lést úr sýkingu á sama sjúkrahúsi, University Hospital Galway, þegar læknar neituð að framkvæma fóstureyðingu af því að þeir gátu numið hjartslátt fóstursins.

Annað dæmi segir frá því þegar heilbrigðisstarfsfólk sagðist tilneytt til að halda heiladauðri konu „á lífi“ með vélum, þvert á óskir fjölskyldu hennar, þar til 15 vikna fóstur sem hún bar undir belti hefði náð þeim þroska að vera lífvænlegt.

Þá er í skýrslunni að finna frásagnir nokkurra kvenna, sem segja frá fjárhagslegum vandkvæðum við að þurfa að leita út fyrir landsteinana eftir aðstoð, og þeim fordómum sem þær mæta við heimkomuna.

Eitt hörmulegasta dæmið segir frá hælisleitandanum Y, sem var rænt, beitt ofbeldi og nauðgað í heimalandi sínu. Þegar hún kom til Írlands komst hún að því að hún var ólétt. Hún reyndi að ferðast til Englands en var neitað um inngöngu inn í landið, og þrátt fyrir hungurverkfall og hótanir um að fremja sjálfsmorð, var hún neydd til að ganga með barnið, sem var svo tekið með keisaraskurði.

Frétt um málið má finna á heimasíðu Amnesty International á Íslandi.

Lupe er ein þeirra sem sagði Amnesty sögu sína.
Lupe er ein þeirra sem sagði Amnesty sögu sína. Amnesty International/Eugene Langan
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert