Dómari í Louisiana í Bandaríkjunum hefur fyrirkskipað að yfirvöldum beri að frelsa mann sem setið hefur í einangrun í 40 ár. Dómarinn bannaði einnig ákæruvaldinu að rétta yfir Albert Woodfox, 68 ára, í þriðja sinn.
Woodfox hefur setið í einangrun frá því í apríl 1972, eftir að fangavörður lét lífið í fangelsisóeirðum. Ákæruvaldið hefur tvívegis gert tilraun til að sækja Woodfox til saka fyrir dauða varðarins en í bæði skiptin var úrskurði um sekt snúið.
Woodfox hefur ávallt neitað sök í málinu.
Á mánudag fyrirskipaði dómarinn James Brady að Woodfox skyldi sleppt, skilyrðislaust. Þá bannaði hann að réttað yrði í málinu gegn honum enn eina ferðina, og sagði það ekki sanngjarnt.
Talsmaður ákæruvaldsins sagði hins vegar að ákvörðun dómarans yrði áfrýjað, „til að tryggja að þessi morðingi verði áfram í fangelsi og látin sæta ábyrgð fyrir gjörðir sínar“.
Woodfox er einn þremenninganna sem hafa verið kallaðir „the Angola three“, en þeim var öllum haldið í einangrun í hámarksöryggisfangelsi nærri fyrrverandi þrælaplantekrunni Angola.
Hinum mönnunum, Robert King og Herman Wallace, var sleppt 2001 og 2013. Woodfox og Wallace voru báðir viðloðandi Svörtu pardusana, en allir þrír héldu því fram að þeir hefðu verið fangelsaðir fyrir glæpi sem þeir frömdu ekki.
Fyrir þremur árum sagði King í samtali við BBC að það hefði verið ógnvekjandi að sjá hvernig fangar brotnuðu niður við skort á mannlegum samskiptum.