Í góðri stöðu sem arftaki Blatters

Michel Platini (t.h.) ásamt Sepp Blatter, fráfarandi forseta FIFA, en …
Michel Platini (t.h.) ásamt Sepp Blatter, fráfarandi forseta FIFA, en þeir hafa þurft að vinna saman. AFP

Meðal þeirra sem helst eru nefndir sem líklegir eftirmenn Sepp Blatter á forsetastóli Alþjóðaknattspyrnusambandsins (FIFA) er franski stjörnuleikmaðurinn fyrrverandi og núverandi forseti Evrópusambands fótboltans (UEFA), Michel Platini. Fór hann fyrir öflunum sem kröfðust afsagnar Blatters í aðdraganda nýafstaðins þings FIFA í Zürich í Sviss. Annar helsti kandídat sem eftirmaður Blatters er Ali bin al-Hussein Jórdaníuprins sem bauð sig fram gegn forsetanum á þinginu nýliðna en laut í lægra haldi.

Það tók ekki veðmangara langan tíma að komast yfir óvænta afsögn FIFA-forsetans fjórum dögum eftir fjórða endurkjör hans og tilnefna líklegasta eftirmann hans. Niðurstaða þeirra er að Platini sé líklegastur til að leiða fótboltasambandið til móts við nýja tíma. Veðmangararnir fá þó engu um það ráðið hver hnossið hreppir, heldur knattspyrnusamböndin sem mynda FIFA.

Blatter greiðir leiðina

Daginn fyrir þingið sagði Platini að endurkjör Blatters myndi „gera út af við fótboltann“. Reið þessi fyrrverandi skjólstæðingur Blatters í fylkingarbrjósti andstæðinga forsetans eftir að tilkynnt var um alþjóðlega sakamálsrannsókn á hendur FIFA og handtöku fjölda starfsmanna og helstu forsprakka íþróttarinnar vegna mútumála. Reið þá yfir sambandið mesta kreppa í sögu þess.

Afsögn Blatters er talin munu greiða leiðina fyrir Platini í forsetastól FIFA. „Þetta var honum erfið ákvörðun, sýndi hugrekki og var hin rétta,“ sagði Platini um ákvörðun forsetans. Þótt andstæðingar Blatters hafi fagnað þá verður leitin að hinum rétta eftirmanni hans til að takast á hendur umbætur til að endurreisa laskað orðspor FIFA ekki svo auðveld, að sögn fyrrverandi umbótaráðgjafa sambandsins, Mark Pieth.

Liggja undir feldi

Það síðasta sem bæði Platini og nokkur annar innan UEFA er að ræða opinberlega er hvort eða hvenær hann bjóði sig fram til forseta FIFA. UEFA-löndin vilja koma fram sem ein og samstæð heild, þó að slíkt sé fátítt í heimi fótboltans um þessar mundir.

Til stóð að forystumenn knattspyrnusambanda Evrópulandanna kæmu saman til fundar í Berlín sl. laugardag til að ræða spillingarmálin og stilla saman strengi sína. Vegna „óvissu og ófyrirsjáanlegra“ atburða vikunnar og „vegna nýrra upplýsinga sem fram koma dag hvern“ ákvað Platini að slá fundinum á frest. Þrátt fyrir góð tengsl hans við ráðamenn í Qatar og stuðning við HM-haldið þar er hann sagður eiga mikinn stuðning UEFA-ríkjanna við að bjóða sig fram sem eftirmaður Blatters. Hvort honum takist að vinna öll 54 knattspyrnusambönd UEFA á sitt band og afla sér stuðnings utan Evrópu – aðallega í Asíu og Afríku – á eftir að koma í ljós. Fróðir segja að það verði enginn leikur. Hafa verði til dæmis í huga að nokkur Evrópulönd kusu Blatter í forsetakjörinu nýafstaðna, þar á meðal Rússland.

Alveg ný staða

Vissulega er komin upp alveg ný staða núna frá því á kjördag. Í Afríku og Asíu, þar sem obbann af 209 aðildarríkjum FIFA er að finna, er eitt sem ekkert hefur breyst; grunsemdirnar og efasemdirnar um hvatirnar að baki spillingarrannsókninni, sem runnin er undan rifjum bandarískra yfirvalda. Þar ríkir sú tilfinning að rannsóknin sé sprottin af öfund Breta og Bandaríkjamanna yfir því að verða undir í staðarvali HM 2018 og 2022, rétt eins og Vladimír Pútín Rússlandsforseti hélt fram í kringum FIFA-þingið.

Í framhaldi af endurkjöri Blatters árið 2011 fól FIFA nefnd undir forystu Pieth að bæta rekstur FIFA og starfshætti í höfuðstöðvum þess. Mótframbjóðandi hans það ár dró sig í hlé vegna ásakana um atkvæðakaup. Árið áður voru fulltrúar FIFA sem völdu Rússland og Qatar sem gestgjafa næstu heimsmeistaramóta sakaðir opinberlega um fjármálamisferli.

Platini var meðal þeirra fyrstu til að viðurkenna að hafa greitt Qatar atkvæði sitt. Sú ákvörðun hefur allar götur síðan hrellt FIFA, m.a. vegna fullyrðinga um atkvæðakaup olíuríkisins. Platini segist hins vegar algjörlega með hreinan skjöld í því efni. „Hann er sigurstranglegastur frá sjónarhóli innanbúðarmanna, en hans bíða smánarleg hneykslismál, ekki bara Qatar,“ segir Pieth.

Michel Platini, forseti UEFA, afhenti liðsmönnum Barcelona bikarinn eftir úrslitaleik …
Michel Platini, forseti UEFA, afhenti liðsmönnum Barcelona bikarinn eftir úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu á Ólympíuleikvanginum í Berlín síðastliðið laugardagskvöld, eftir sigur á Juventus. Sjálfur var Platini sigursæll knattspyrnumaður og þjálfari og hampaði mörgum bikurum. AFP

Með góðan bakgrunn

Platini er 59 ára og eftir að hann hætti glæsilegum ferli sem atvinnuknattspyrnumaður 32 ára að aldri tók hann við þjálfun franska landsliðsins. Því starfi gegndi hann um fjögurra ára skeið en sneri sér síðan að stjórnarstörfum hjá franska fótboltasambandinu og var maðurinn á bak við að Frakkar fengu umsjón HM í knattspyrnu árið 1998. Því lauk með sigri franska landsliðsins, á heimavelli í París. Þessi bakgrunnur er talinn styrkur hans og segja má að hann standi enn betur að vígi eftir að hafa verið valinn forseti UEFA árið 2007.

Daginn fyrir FIFA-kjörið í Zürich sagðist Platini hafa gengið á fund Blatters, horft djúpt í augun á honum og beðið hann að draga sig í hlé. Um tíma voru þeir svo nánir að fyrir Platini var Blatter eins og gamli frændi hans, sagði Platini. En hann fékk ekki hnikað forsetanum og sat eftir rjúkandi reiður.

Jon Doviken, fyrrverandi aðstoðarframkvæmdastjóri FIFA, sem Blatter rak úr starfi fyrir að ganga til liðs við hóp manna sem reyndu að koma forsetanum frá vegna meints fjármálamisferlis, segir að Platini sé líklegasti arftaki Blatters en þó ekki sá ákjósanlegasti. „Ég held að sambandið þurfi mann sem sýnt hefur og sannað að heiðarleiki hans verði ekki dreginn í efa. Væri ég spurður myndi ég benda á Englending,“ segir Doviken.

Gagnrýni hefur mátt sín lítils

Enska knattspyrnusambandið hefur á undanförnum árum gengið einna harðast fram í gagnrýni á starfsemi og stjórnun FIFA. Flest aðildarsambandanna hafa þó kært sig kollótt og látið það sem vind um eyru þjóta. Til að mynda var púað á formann þess þegar hann hvatti til þess árið 2011 að forsetakjöri yrði slegið á frest vegna þess að þá umléku eldar spillingar sambandið vegna atkvæðakaupa.

Í forsetatíð Blatters hafa tekjur FIFA margfaldast vegna mikillar hækkunar á tekjum af sölu sjónvarpsréttinda og annarra markaðsréttinda vegna HM í knattspyrnu sem nýtur meira áhorfs og athygli en nokkur annar viðburður á jarðarkringlunni. Þessar tekjur hafa meðal annars runnið til útbreiðslu og þróunar knattspyrnunnar í aðildarríkjum FIFA. En þær hafa einnig reynst eitraður kaleikur því ásakanir um margskonar misferli, allt frá svindli með aðgöngumiða og upp í kosningamútuþægni, einkenna valdatíð Blatter.

„Fall hans ætti að koma af stað flóðbylgju er kaffærir spillta leiðtoga sambanda um heim allan. Við þurfum að sjá spillingarmennina senda í fangelsi og höfum þörf fyrir framlag mikilla fyrirmynda, góðra íþróttaleiðtoga og unnenda fótboltans,“ skrifaði brasilíski sóknarmaðurinn Romario, heimsmeistari 1994, á Twittersíðu sína. Alexandra Wrage, forseti Trace International, sjálfseignarstofnunar sem veitir fjölþjóðafyrirtækjum ráð til að verjast mútuþægni, sat í fyrrnefndri umbótanefnd FIFA en sagði af sér eftir að lykiltillögum nefndarinnar var hafnað. Þar á meðal voru tillögur um óháð eftirlit með starfsemi FIFA og takmörk á setulengd í framkvæmdastjórn sambandsins.

Wrage varar við því að láta uppistandið vegna afsagnar Blatter skyggja á þá vinnu sem endurreisn orðspor FIFA kallar á. Og bendir á, að aðeins fjórum dögum fyrir afsögnina greiddu næstum tveir þriðju aðildarlanda sambandsins óbreyttu ástandi atkvæði sitt.

„Varast ber að vænta skriðu stuðnings við umbætur. Helsta von FIFA er að fram komi nýr maður með afburða stjórnunarhæfileika og óflekkuð heilindi. Hvort hann kemur úr íþróttinni sjálfri eða annars staðar frá skiptir minna máli en hvort hann er með hreinan skjöld og enga umdeilda pinkla í farteskinu,“ segir hún.

Margir í framboði

En Platini verður ekki einn um hituna þótt sigurstranglegur sé talinn. Chung Mong Joon, heiðursvarafoseti FIFA og fyrrverandi frambjóðandi í forsetakosningum í Suður-Kóreu, hefur sagst vera að íhuga framboð til FIFA. Þá gaf fyrrnefndur Ali Jórdaníuprins, bróðir Abdullah konungs, til kynna við CNN-sjónvarpsstöðina, að hann væri tilbúinn til að sækjast að nýju eftir forsetastól FIFA.

„Ég er til reiðu fyrir landssamböndin öll sem vilja breytingar og líka þau sem hræddust breytingar,“ sagði Ali sem hlaut 73 atkvæði í kosningunni hjá FIFA gegn 133 atkvæðum Blatters. Og búast má jafnvel við fleiri framboðum.

Bjóði Platini sig fram kemur líklega vænn skerfur af atkvæðum Ali í hans hlut. Ekki eru fyrrnefndir veðmangarar á einu máli um forsetaefnin. Fyrirtækið Coral Bookmakers metur Ali prins sigurstranglegastan með líkindunum 11-10 og Platini næstlíklegastan með líkindunum 6-4. Stærsti veðmangarinn, William Hill, telur frönsku fótboltahetjuna sigurlegri með líkunum 6-5. Þangað til eftirmaður hans er fundinn mun Blatter sitja í embætti en líklegast er að aukaþing um kjör nýs forseta FIFA fari fram á tímabilinu desember til mars næstkomandi.

Efins um að Blatter hætti

Annar fulltrúi í fyrrnefndri umbótanefnd FIFA undir stjórn Pieth, Michael Hershman, meðstofnandi Transparency International, virðist ekki fyllilega sannfærður um að Blatter hverfi af vettvangi. Minnir hann á að við forsetakjör árið 2011 hafi hann heitið því að bjóða sig aldrei aftur fram en síðar skipt um skoðun. „Sepp Blatter er enn í starfi og stýrir FIFA áfram, ég ætla ekki að trúa því [að hann hætti] fyrr en ég sé það gerast.“

Á annarri skoðun er forseti enska knattspyrnusambandsins, Greg Dyke. Hann er á því að Blatter verði handtekinn vegna spillingarmála „innan skamms“ og hrekist því úr embætti.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert