Afar mjótt er á munum milli rauðu og bláu blokkanna í dönskum stjórnmálum, nú þegar rúm vika er í að þingkosningar fari fram í landinu. Jafnaðarmenn, með forsætisráðherrann Helle Thorning-Schmidt í broddi fylkingar, mælast stærsti flokkurinn í skoðanakönnunum með 26,1% fylgi, en Venstre mælist með 20%.
Í kosningabaráttunni hefur Thorning-Schmidt lagt áherslu á árangur ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum, en fyrir tveimur árum mældist fylgi stjórnarandstöðuflokkanna 17% meira en stjórnarflokkanna. Í dag eru blokkirnar nánast hnífjafnar, vinstriflokkarnir mælast með 49,4% fylgi, samkvæmt Berlingske, og hægriflokkarnir með 50,2% fylgi.
Vegna dreifingar atkvæða á flokka myndi vinstri blokkin fá 88 þingmenn og hægri blokkinn 87, ef úrslit færu eins og skoðanakannanir gera ráð fyrir.
Thorning-Schmidt sagði í samtali við Financial Times í vikunni að ríkisstjórnin hefði reynt að viðhalda jafnvægi í aðgerðum; ráðist í endurbætur á innviðum og skapað hagstætt viðskiptaumhverfi með skattalækkunum, en á sama tíma leitast við að viðhalda samfélagslegum jöfnuði.
Forsætisráðherrann, sem var nefnd sem mögulegur kandídat í embætti forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins í fyrra, býr að því að njóta mun meiri persónulegra vinsælda en helsti andstæðingur hennar, Lars Lokke Rasmussen, sem hefur verið viðriðin ýmis vandræðaleg hneyksli.
Rasmussen, formaður Venstre, bendir hins vegar á að Thorning-Schmidt hafi gengið á bak ýmissa loforða sem hún gaf í upphafi kjörtímabilsins. „Hún stóð ekki við gefin loforð. Fólk veit að ég er náungi sem efnir loforð sín,“ sagði Rasmussen í samtali við FT í Roskilde.
Það kemur Thorning-Schmidt illa að kjósendur eru enn minnugir þess þegar hlutabréf í ríkisorkufélaginu Dong voru seld til fjármálarisans Goldman Sachs í Bandaríkjunum. Hins vegar nýtur hún góðs af því að samkvæmt spám verður hagvöxtur í landinu 1,7% í ár og 2% á næsta ári.
Danir ganga til þingkosninga 18. júní næstkomandi.