Komið var með líkamsleifar 44 farþega sem fórust þegar flugmaður grandaði farþegaþotu í frönsku Ölpunum til í Dusseldorf í gærkvöldi. Þær verða nú afhentar fjölskyldum til greftrunar. Sextán látnu voru nemendur við Joseph-Koenig Gymnasium í Haltern, sem voru á heimleið eftir skiptinám í Barcelona.
Fjölskyldur hinna látnu munu fá tækifæri til að sjá kisturnar í flugskýli í Dusseldorf í dag. Lögmaður nokkurra þeirra segir endurheimt líkamsleifanna marka endalok málsins fyrir nákomna.
Lufthansa flaug kistunum heim frá Marseille í vöruflutningavél. Fyrirtækið er móðurfélag Germanwings, en vélin sem fórst var á vegum þess félags. Talið er að aðstoðarflugmaðurinn Andreas Lubitz hafi brotlent vélinni vísvitandi, en alls fórust 150, farþegar og áhöfn.
Fyrrnefndur lögmaður, Elmar Giemulla, sagði í samtali við AFP að fjölskyldur ungmennanna sem létust væru í afneitun; þær vildu ekki trúa því að börnin væru látin. Það yrði erfið stund þegar þau sæju kisturnar fyrir framan sig.
Líkamsleifar annarra farþega verða sendar heim á næstu vikum, en þeir voru frá 18 löndum.