Joyce Mitchell, fangelsisstarfsmaðurinn sem er grunuð um að hafa aðstoðað tvo hættulega fanga að flýja fangelsi í New York á laugardaginn, heillaðist af öðrum fanganum. „Hún hélt að þetta væri ást,“ sagði einn lögreglumaður á blaðamannafundi. NBC greinir frá þessu.
Eins og áður hefur komið fram er talið að Mitchell hafi ætlað að sækja fangana á bíl þegar fyrir utan veggi fangelsisins var komið. Hún starfar sem saumakona í fangelsinu og samkvæmt lögreglumönnum höfðu hún og Richard Matt, einn þeirra eftirlýstu, orðið náin síðustu tvo mánuðina.
En í staðinn fyrir að keyra fangana á laugardaginn fór hún á sjúkrahús vegna „andlegra óþæginda“ og er hún þar enn.
Yfirvöld í New York, Vermont og fleiri fylkjum Bandaríkjanna leita nú mannanna sem náðu að komast í gegnum vegg í fangaklefa sínum, þaðan inn í lofræstigöng. Þar brutu þeir niður annan vegg og skriðu í gegnum lögn. Loks komust þeir út um ræsi fyrir utan fangelsismúrana. Ljóst er að mennirnir hafi haft aðgang að verkfærum sem þeir notuðu við flóttann.
Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu verður Mitchell ákærð fyrir aðild sína að málinu en ekki kom fram fyrir hvað nákvæmlega.
Lögregla greindi frá því í gær að Mitchell hafi vingast við fangana. Sonur hennar, Tobey Mitchell, sagði í samtali við NBC á þriðjudaginn að móðir hans hefði aldrei hjálpað föngunum að sleppa.
„Hún er ekki einhver sem myndi hætta lífi sínu og annarra til þess að hjálpa þeim að sleppa úr fangelsi,“ sagði hann. Aðspurður hvort að fangarnir hafi notfært sér móður hans sagðist hann ekki vita það. „En þeir eru báðir dæmdir morðingjar. Þú ert fangi sem er í lífstíðarfangelsi, þú hefur engu að tapa.“
Fyrri fréttir mbl.is: