Sáu morðingjana í garðinum

Mennirnir sátu báðir inni fyrir morð.
Mennirnir sátu báðir inni fyrir morð. Skjáskot af CNN

Lögreglan í New York-ríki lokaði nokkrum af helstu hraðbrautum ríkisins í dag í leit sinni að tveimur dæmdum morðingjum sem tókst að brjótast út úr öryggisfangelsi fyrir sex dögum. Lögreglan fékk vísbendingu um ferð mannanna og er nú umfangsmikil leit í gangi. Hundruð lögreglumanna leita nú m.a. í skóglendi, „bak við hvert einasta tré og undir hverjum einasta steini,“ segir aðstoðarlögreglustjórinn Joseph D'Amico í samtali við CNN sjónvarpsstöðina. Einnig er nú leitað í Vermont. „Við sáum morðingjana í garðinum okkar,“ hefur CNN eftir íbúa í New York.

Leitað er fanganna Richard Matt, 48 ára, og David Sweat, 34 ára. Þeim tókst að sleppa úr Clinton-fangelsinu í Dannemora í New York-ríki, skammt frá landamærunum að Kanada, um helgina. Myndir af mönnunum hafa m.a. verið birtar á auglýsingaskiltum víða um ríkið. 

Upp komst um flótta fanganna á laugardag. Talið er að þeir hafi notið aðstoðar starfskonu fangelsisins. Er hún talin hafa ætlað að sækja fanganna utan fangelsisveggjanna en hætt svo við, samkvæmt heimildum CNN. Hún hefur ekki verið handtekin en er sögð vinna með lögreglunni að lausn málsins.

 Lögreglan óttast að mennirnir munu leita sér að vopnum til að verjast handtöku. „Ef þeim finnst þeir vera króaðir af er mögulegt að þeir geri eitthvað róttækt,“ segir talsmaður lögreglunnar.

En hvernig tókst mönnunum að brjótast út úr rammgerðu fangelsi? Til þess notuðu þeir ýmis verkfæri. Þeim tókst að komast í gegnum vegg í fangaklefa sínum, sem m.a. er styrktur með járni og komast inn í loftræstigöng. Þegar þangað var komið þurftu þeir brjóta niður vegg, saga í gegnum þykka lögn, skríða eftir henni, saga enn eitt gatið í vegg og loks koma upp um ræsi fyrir utan fangelsismúrana.

Þá þykir einnig merkilegt hversu lengi þeim hefur tekist að fara huldu höfði. Í flestum tilvikum nást fangar á flótta innan sólarhrings. 

Mennirnir sátu báðir inni fyrir morð. Sweat var að afplána lífstíðarfangelsisdóm fyrir að skjóta lögreglumann árið 2002. Eftir að hafa skotið manninn ók hann yfir hann á bíl sínum.  

Matt var dæmdur fyrir mannrán og morð. Hann hélt manninum í 27 klukkustundir og er hann neitaði að borga lausnargjald var hann drepinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert