Dominique Strauss-Kahn hefur verið sýknaður af ákærum um hórmang. Dómurinn markar lokauppgjör á lagaflækjum sem hafa umvafið Strauss-Kahn frá því að þerna á hóteli í New York ásakaði hann um kynferðislegt ofbeldi árið 2011.
Þrettán aðrir voru ákærðir í málinu, sem snéri að kynlífssvallveislum sem Strauss-Kahn, fyrrverandi framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, játaði að hafa tekið þátt í. Hann sagði hins vegar að honum hefði ekki verið kunnugt um að konurnar sem tóku þátt í veislunum voru vændiskonur.
Fáir áttu von á því að Strauss-Kahn yrði fundinn sekur, þar sem ákæruvaldið hafði farið fram á að hann yrði sýknaður, eins furðulega og það kann að hljóma. Saksóknarar sögðu að þau sönnunargögn sem lögð höfðu verið fram, dyggðu ekki til að sýna fram á að Strauss-Kahn hefði hagnast á vændinu sem fram fór, en það væri forsenda sektardóms.
Mennirnir sem voru ákærðir í málinu voru sakaðir um að hafa ýmist tekið þátt í og/eða skipulagt kynlífssvall í París, Washington og Brussel á árunum 2008-2011. Á þeim tíma var Strauss-Kahn framkvæmdastjóri ASG og giftur maður.
Dóma í máli hinna ákærðu er einnig að vænta í dag.