„Svarta baráttukonan“ er hvít

Rachel Dolezal. Nýleg mynd til vinstri og frá unglingsárunum til …
Rachel Dolezal. Nýleg mynd til vinstri og frá unglingsárunum til hægri.

Kynforeldrar þekktrar mannréttindakonu í Washington-ríki segja að hún hafi blekkt fólk og þóst vera svört. Hún sé af hvítu fólki komin.

Rachel Dolezal er kennari í borginni Spokane í Washington. Hún er einnig formaður mannréttindasamtaka svartra í borginni, NAACP. Hún kennir afrísk fræði og afríska menningu í Eastern Washington-háskóla. Hún hefur einnig margsinnis komið fram í fjölmiðlum til að ræða misrétti gagnvart svörtum í landinu.

Í vikunni var svo birt viðtal við foreldra hennar á lítilli sjónvarpsstöð í Spokane. Þeir segja að dóttir þeirra sé ekki af afrísku bergi brotin heldur eigi hún ættir að rekja til Þýskalands og Tékklands. 

Ruthanne og Larry Dolezal segja að dóttir þeirra eigi þó svört systkini, sem þau hafi ættleitt. Hún hafi átt marga svarta vini sem barn og táningur og síðar gifst svörtum manni.

Foreldrarnir segja að eftir að hún skildi árið 2004 hafi hún farið að breyta útliti sínu smám saman. „Rachel vildi vera einhver önnur en hún er. Hún hefur valið að vera ekki hún sjálf heldur látið sem hún sé svört eða blönduð. Það er einfaldlega ekki sannleikurinn,“ sagði móðir hennar í viðtalinu en m.a. hefur verið fjallað um málið í The Guardian og The Telegraph.

Þessu til sönnunar sýndu foreldrarnir myndir af dóttur sinni er hún var barn ljóshært og unglingur og einnig frá brúðkaupi hennar fyrir nokkrum árum. Þau sýndu einnig fæðingarvottorð dóttur sinnar.

Rachel Dolezal segist ekki vera í sambandi við foreldra sína vegna dómsmáls sem sé í gangi. Hún segist ekki líta á þau sem raunverulega foreldra sína.

Hún vildi hins vegar ekki ræða við fjölmiðla um það sem foreldrar hennar sögðu um uppruna hennar. Að minnsta kosti ekki strax. Fyrst vill hún setja samstarfsfólk sitt inn í málið.

„Þetta er ekki eins einfalt og það hljómar. Þetta er mjög flólkið og ég er ekki viss um að allir munu skilja það. Við komum öll frá Afríku.“

Rachel hefur m.a. starfað fyrir borgina í nefnd um lögreglumál. Borgarskrifstofan segir að hún hafi gefið upp margskonar uppruna á umsóknareyðublöðum. Yfirvöld segjast nú skoða hvort að blekking hennar hafi brotið lög eða reglur borgarinnar. 

Fyrrverandi forseti mannréttindasamtaka svartra, NAACP, sem Rachel er nú í forsvari fyrir, segir að litarháttur hennar hafi ekki skipt öllu máli við ráðningu hennar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert