Það stefnir allt í æsispennandi kosningar í Danmörku á morgun. Einum degi fyrir kjördag sýna skoðanakannanir mismunandi niðurstöður, einhverjir gera ráð fyrir rauðum sigri en aðrir bláum. Könnun Berlingske gerir ráð fyrir að bláa blokkin fái eins þingmanns meirihluta.
Bæði kannanir Politiken og Berlingske gera ráð fyrir naumum sigri bláu blokkarinnar. Í könnun Politiken fær bláa blokkin 89 þingmenn en sú rauða 86. Samkvæmt könnun Berlingske fær bláa blokkin 88 og rauða 87.
Fyrir aðeins nokkrum dögum virtist allt stefna í átt til rauðs sigurs, með naumum meirihluta en þetta hefur snúist við á síðustu dögum. Jyllandsposten gerir þó enn ráð fyrir rauðum sigri með 89 þingmönnum gegn 86 þingmönnum bláu blokkarinnar.
Í dönsku miðlunum í dag er greint frá því að umræðan síðustu daga sé orðin afar óvægin enda mikið undir í þessum jöfnu kosningum. Flokkurinn Liberal Alliance, sem tilheyrir bláu blokkinni birti auglýsingar í helstu dagblöðum landsins í dag í von um að snúa rauðum kjósendum yfir á sitt band. „Þið lesendur hafið kannski myndað ykkur ákveðna skoðun á stefnumálum Liberal Alliance. Það er í góðu lagi. En þið eigið rétt á því að fá réttar upplýsingar,“ stendur í auglýsingunni. Vill flokkurinn þar með blása á þá gagnrýni sem flokkar rauðu blokkarinnar hafa sett fram á síðust dögum.
Flokkurinn Venstre, sem tilheyrir bláu blokkinni, birti einnig auglýsingar í dag þar sem gagnrýni Jafnaðarmanna er svarað. „Þar sem Jafnaðarmenn hafa undanfarna daga reynt að grafa undan málflutningi Venstre verðum við að bregðast við,“ stendur í auglýsingu flokksins sem er undirrituð af fjölda fulltrúa flokksins, á þingi og í borgarstjórn.
Jafnaðarmannaflokkurinn, sem forsætisráðherrann Helle Thorning-Schmidt leiðir, birti auglýsingu í Berlingske Tidende í dag. Þar fylgir stuðningsyfirlýsing 20 hagfræðinga sem segjast styðja efnahagsstefnu hennar. Er það gert til þess að slá á gagnrýni hægriflokkanna um að fjármálin séu í ólestri í landinu.
Danir ganga til kjörkassanna á morgun og verða niðurstöðurnar kynntar annað kvöld og fram á nótt.
Sjá frétt Politiken.