Joyce Mitchell, sem er ákærð fyrir að hafa aðstoðað fangana tvo sem sluppu úr fangelsi í New York í Bandaríkjunum fyrir tæpum tveimur vikum, hafði beðið þá um að myrða eiginmann sinn þegar þeir kæmust út.
Mitchell starfaði í fangelsinu sem saumakona. Hún er sökuð um að hafa smyglað verkfærum til fanganna. Þeir Richard Matt og David Sweat notuðu verkfærin til þess að brjótast út úr fangelsinu og hefur leit staðið yfir af þeim í ellefu daga. Rannsókn málsins hefur beinst að Mitchell eftir að í ljós kom að hún ætti mögulega í ástarsambandi við Matt.
Saksóknari staðfesti það á blaðamannafundi í dag að Mitchell hafi beðið mennina um að myrða eiginmann sinn, Lyle Mitchell, sem einnig starfar í fangelsinu. Þá sagði hann jafnframt að Lyle hafi ekkert vitað um áform hennar né hjálpað henni við þau eins og haldið var í upphafi.
Rannsóknarmenn hafa gefið í skyn að Mitchell hafi verið heilluð af föngunum og samþykkt að sækja þá í bíl þegar þær væru komnir fyrir utan veggi fangelsisins. Hún skipti þó um skoðun og fór á sjúkrahús vegna kvíðakasts daginn sem fangarnir sluppu. Hún var handtekin þann 12. júní.
Fyrri fréttir mbl.is:
Saumakonan útvegaði verkfærin
Strokufangarnir gætu hafa fengið aðstoð