Hægrimenn auka forskotið

Kristian Thulesen Dahl er formaður Danska Þjóðarflokksins.
Kristian Thulesen Dahl er formaður Danska Þjóðarflokksins.

Sósíaldemókratinn Helle Thorning-Schmidt er á leið úr forsætisráðherrastólnum í Danmörku ef marka má nýjustu tölur í dönsku þingkosningunum.

Bláa blokkin svokallaða hefur aukið forskot sitt frá útgönguspám klukkan 20 á staðartíma. Nú hafa 31% atkvæða verið talin og miðað við nýjustu tölur áætlar DR að bláliðar á hægri vængnum fengju 91 þingmann kjörinn, en rauð blokk jafnaðarmanna 84 menn. 

Rauða blokkin undir forystu Helle Thorning-Schmidt gæti misst meirihluta sinn …
Rauða blokkin undir forystu Helle Thorning-Schmidt gæti misst meirihluta sinn á þinginu. AFP

Stærsti flokkurinn er enn Sósíaldemókrataflokkur Thorning-Schmidt, sem fengi 47 menn á þing. Næststærstur er Danski þjóðarflokkurinn, sem tilheyrir samstarfi hægrimanna, en hann fengi 38 menn kjörna. Þriðji er síðan Venstre, flokkur Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherraefnis bláu blokkarinnar með 34 menn. Um talsvert fylgistap er að ræða hjá Venstre, en flokkurinn fékk 44 menn í síðustu þingkosningum.

Frétt mbl.is: Naumt forskot hinna bláu

Kristian Thulesen Dahl, formaður Danska þjóðarflokksins, fagnaði góðu gengi flokksins á fundi með stuðningsmönnum í Kristjánsborg í kvöld. „Danski þjóðarflokkurinn er flokkur sem ber að taka alvarlega,“ sagði Dahl samkvæmt frétt Jyllands-Posten. Helstu stefnu­mál flokks­ins eru hert inn­flytj­enda­lög­gjöf og gagn­rýni á Evr­ópu­sam­bandið

Uppfært: 63% atkvæða hafa nú verið talin og enn eykst forskot hægrifylkingarinnar. Þannig er bláa blokkin nú með 92 menn inni, en sú rauða með 83.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka