Naumt forskot hinna bláu

Lars Løkke Rasmus­sen, formaður Venstre, er forsætisráðherraefni Bláu blokkarinnar.
Lars Løkke Rasmus­sen, formaður Venstre, er forsætisráðherraefni Bláu blokkarinnar. AFP

Kjörstöðum var lokað í Danmörku nú klukkan sex, eða átta að staðartíma. Gríðarlega mjótt er á mununum, en miðað við nýja útgönguspá falla 89 þingsæti til „bláu blokkarinnar“ svokölluðu, en 86 til „rauðu blokkarinnar“, sem nú er við völd. Þannig mælist hin bláa blokk hægrimanna með 50,9 prósent atkvæða en rauð blokk jafnaðarmanna með 49,1 prósent. Þetta er í takt við skoðana­könn­un sem dag­blaðið Berl­ingske birti í gær, en þar hlaut rauða blokk­in um 49,3% at­kvæða en sú bláa um 50,7%. Bendir spáin því til þess að hinir rauðu missi meirihluta sinn á þingi í kvöld.

Forsætisráðherrann Helle Thorn­ing-Schmidt
Forsætisráðherrann Helle Thorn­ing-Schmidt AFP

Rauða blokkin er undir forystu forsætisráðherrans Helle Thorn­ing-Schmidt, sem jafnframt er leiðtogi sósíaldemókrata. Bláliðar eru hins vegar samsuða flokka hægra megin við miðju undir forystu formanns Venstre, Lars Løkke Rasmus­sen. Báðar hafa fylkingarnar lagt talsverða áherslu á innflytjendamál, en víða má sjá kosn­inga­skilti þar sem inn­flytj­end­ur eru varaðir við því að halda að þeir geti nýtt sér vel­ferðarbæt­ur í land­inu. „Ef þú kem­ur til Dan­merk­ur, þá verður þú að vinna,“ seg­ir á skilt­un­um, en skila­boðin koma frá Thorn­ing-Schmidt.

Rasmussen hefur hins vegar keyrt enn harðar inn í málaflokkinn og lofað að hefta straum flóttamanna til landsins. Fyrsta verk mitt sem for­sæt­is­ráðherra verður að leita taf­ar­lausra leiða til að hefta straum flótta­fólks,“ sagði hann á blaðamanna­fundi í síðustu viku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka