Ríkisstjórn Helle Thorning Schmidt, forsætisráðherra Danmerkur, er fallin, en bandalag hægriflokka í landinu náði 90 sætum á móti 85 sætum vinstribandalagsins. Þrátt fyrir ósigurinn er flokkur Thorning Schmidt enn stærsti flokkurinn með 26,3% fylgi og 47 þingsæti, en Danski þjóðarflokkurinn er nærst stærstur með 21,1% fylgi og 37 þingmenn.
Flokkur Lars Løkke Rasmussen er þriðji stærsti flokkurinn með 19,5% og 34 þingsæti, en allar líkur eru á að Rasmussen verði næsti forsætisráðherra. Hann gegndi því embætti fyrir síðust þingkosningar þegar bandalag vinstrimanna vann kosningarnar.
Kosningaþátttaka var 85,8% og hafa 99,8% atkvæða verið talin. Hægri fylkingin er með 51,9%, en vinstri fylkingin fékk 48,1% atkvæða.