Gengur á fund drottningar

Helle Thorning-Schmidt, forsætisráðherra Danmerkur.
Helle Thorning-Schmidt, forsætisráðherra Danmerkur. AFP

Helle Thorning-Schmidt, forsætisráðherra Danmerkur, gengur á fund Margrétar Þórhildar Danadrottningar í morgun og mun biðjast lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt.

Lars Løkke Rasmussen, formaður Venstre, mun í kjölfarið ganga á fund drottningar og fá umboð hennar til að mynda ríkisstjórn. Hann er forsætisráðherraefni bláu blokkarinnar svonefndu sem fór með stórsigur í dönsku þingkosningunum í gær.

Thorning-Schmidt lýsti því yfir í gærkvöldi að hún muni láta af embætti formanns Jafnaðarmannaflokksins í Danmörku. Gert er ráð fyrir því að Mette Fredriksen, varaformaður flokksins, taki nú við formannsembættinu.

Ríkisstjórn Thorning-Schmidt féll í kosningunum í gær og mun Rasmussen nú freista þess að mynda nýja ríkisstjórn mið- og hægriflokka.

Bláa blokkin fékk níutíu þingmenn kjörna gegn 85 þingmönnum rauðu blokkarinnar.

Flestum að óvörum er Danski þjóðarflokkurinn orðinn annar stærsti flokkur Danmerkur með 37 þingmenn. Venstre missti á sama tíma fylgi og þingmönnum hans fækkaði um 13 niður í 34.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka