Lars Løkke Rasmussen, leiðtogi Venstre í Danmörku, hefur gefist upp á að reyna að mynda meirihlutastjórn í landinu með stuðningi borgaralegu flokkana sem saman mynda bláu blokkina. Þetta eru flokkarnir Venstre, Danski þjóðarflokkurinn, Samtök frjálslyndra og Íhaldsflokkurinn.
„Ég hef nú rætt við alla flokkana á þinginu og hef komist að þeirri niðurstöður að það er ómögulegt að mynda meirihlutastjórn,“ sagði hann við fjölmiðla í dag.
„Ég hef fundið fyrir jákvæðri stemningu á meðal allra flokka um breitt samstarf. Meirihlutaríkisstjórn fengi afar lítið svigrúm til aðgerða,“ bætti hann við.
Á morgun mun Rasmussen ganga á fund drottningarinnar og greina frá því að hann hafi í huga að mynda minnihlutaríkisstjórn.
Óvíst er hvernig slík ríkisstjórn yrði og hvaða flokkar væru með í spilum. Anders Langballe, pólitíski ritstjóri TV2 segir að Venstre gætu endað einir í minnihlutastjórn.