Fórnaði lífi sínu í árásinni

Tywanza Sanders.
Tywanza Sanders.

Hinn 26 ára gamli Tywanza Sanders var yngsta fórnarlambið í skotárásinni í Charleston í Suður-Karólínu í síðustu viku. Sanders varð fyrir skoti þegar hann reyndi að hlífa elsta fórnarlambinu, 87 ára gömlu frænku sinni Susie Jackson. 

Um klukkan níu á miðvikudagskvöldið í síðustu viku var Sanders í biblíufræðslu í kirkjunni þegar hinn 21 árs gamli Dylann Roof dró upp byssu og hóf skotárás. Níu létust í árásinni, sem hefur verið flokkuð sem hatursglæpur, og er Roof ákærður fyrir öll morðin.

Að sögn þriggja vitna sem lifðu árásina af sýndi Sanders mikið hugrekki þegar Roof byrjaði að hleypa af byssu sinni, og reyndi að tala hann út úr því sem hann var að gera. „Hvers vegna ertu að þessu? Þú þarft ekki að gera þetta,“ spurði hann Roof. Það var þá sem morðinginn sagðist vera kominn „til þess að skjóta svart fólk“ að sögn vitnanna.

Þegar Roof sneri svo byssunni að frænku Sanders stökk hann fyrir hana og varð fyrir skotinu. Roof hlóð byssuna þó að nýju og skaut frænkuna einnig til bana.

Móðir Sanders, Felicia Sanders, var einnig viðstödd biblíufræðsluna en lifði af með því að þykjast vera dáin. Þegar Roof kom fyrir dómara á föstudag steig hún upp sem vitni og sagði minningu sonar síns lifa. „Tywanza var sonur minn, en hann var líka hetjan mín.“

Hún talaði þó einnig beint til Roof og sagði söfnuðinn hafa tekið á móti honum með opnum örmum. „Þú hefur myrt einhverjar fallegustu manneskjur sem ég þekki. Ég finn fyr­ir sárs­auka í hverri ein­ustu taug lík­am­ans og ég verð aldrei söm.“

Fjórir fjölskyldumeðlimir Sanders voru í kirkjunni þegar árásin átti sér stað, en auk móður hans og frænku var hinn sjötugi Ethel Lance einnig skotinn til bana. Frændi Sanders, Horace Taylor, segir því gríðarlegan missi hafa átt sér stað fyrir fjölskylduna. 

Sanders vann á tveimur stöðum, annars vegar sem rakari á rakarastofu í Norður-Charleston, og einnig í eldhúsi á veitingastað. Í frítíma sínum samdi hann svo ljóð og rapptexta. „Á meðan aðrir krakkar voru að prófa dóp var hann bara að reyna að finna leið til að gera lífið betra fyrir okkur öll,“ sagði Taylor og bætti við að þau karaktereinkenni hefðu komið sterklega fram á miðvikudagskvöldið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert