Fjarlægir vörur með suðurríkjafánanum

AFP

Bandaríska verslanakeðjan Walmart tilkynnti í gær að ákveðið hefði verið að fjarlægja allar vörur úr hillum hennar sem merktar væru með suðurríkjafánanum í kjölfar mikilla umræðna um fánann vegna fjöldamorðanna í Emanuel-kirkjunni í Charleston í Suður-Karólínu.

Fáninn var orrustufáni Suðurríkjasambandsins á tímum borgarastyrjaldar Bandaríkjanna en eftir styrjöldina var hefur hann gjarnan verið tengdur við kynþáttahatur. Fánanum hefur verið flaggað undanfarin ár fyrir utan þinghúsið í Charleston en í kjölfar voðaverkanna í borginni hefur verið krafist þess að fáninn verði tekinn niður. Einkum vegna þess að Dylann Roof, maðurinn sem framdi fjöldamorðin þar sem níu manns létu lífið, birti myndir af sér með fánann á netinu.

Málið er umdeilt þar sem margir líta á suðurríkjafánann sem hluta af arfleifð Suðurríkjanna. „Við höfum aldrei haft áhuga á að misbjóða neinum með þeim vörum sem við erum með á boðstólum,“ er haft eftir Brian Nick, talsmanni Walmart í frétt AFP. Ríkisstjóri Suður-Karólínu, Nikki Haley, tók í gær undir kröfur um að suðurríkjafánanum yrði ekki lengur flaggað fyrir utan þinghús ríkisins eftir að hafa áður látið nægja að segja að full ástæða væri til þess að ræða málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka